Fótbolti

Heimir um mál Hannesar: Það verður ekki leyst í fjölmiðlum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. vísir/hulda margrét

Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals, segist vera steinhissa á framkomu Valsmanna gagnvart sér. Hannes segir að þjálfari liðsins vilji ekki hafa hann lengur og að forsvarsmenn félagsins tali ekki við sig.

Þetta sagði Hannes í viðtali við útvarpsstöðina K100. Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, á að hafa sagt Hannesi að hann vilji ekki lengur hafa hann hjá félaginu.

„Ég veit ekki hvers vegna eða hvernig menn hyggjast leysa þessa skrítnu stöðu sem er komin upp. Ég er bara steinhissa á þessu ef ég að segja alveg eins og er,“ sagði Hannes meðal annars en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, vildi lítið tjá sig um málið er íþróttadeild spurði hann út í það í gær. Hann sagði stjórnina eiga eftir að setjast yfir það. Nú væru menn í stuttu fríi.

Heimir Guðjónsson var heldur ekki áfjáður í að tjá sig mikið um þá stöðu sem upp væri komin.

„Þetta mál verður leyst innan Vals en ekki í fjölmiðlum,“ var það eina sem Heimir vildi láta hafa eftir sér um málið.

Hinn 37 ára gamli Hannes hefur verið í lykilhlutverki í liði Vals síðustu ár og átti mjög gott tímabil á nýliðnu sumri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×