Fótbolti

Danir geta tryggt sér farseðilinn til Katar í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emile Højbjerg og félagar í danska landsliðinu geta komist á HM í kvöld.
Pierre-Emile Højbjerg og félagar í danska landsliðinu geta komist á HM í kvöld. getty/Ulrik Pedersen

Danir geta orðið annað liðið til að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Katar 2022 í kvöld.

Danska liðið er í frábærri stöðu í F-riðli undankeppninnar, hafa unnið alla sjö leiki sína, skorað 26 mörk og ekki enn fengið á sig mark.

Þýskaland varð í gær fyrsta liðið til að tryggja sér farseðilinn á HM, fyrir utan gestgjafa Katar, og Danmörk getur leikið sama leik í kvöld.

Danir mæta Austurríkismönnum á Parken í kvöld. Með sigri kemst danska liðið á HM. Það kemst einnig á HM ef það gerir jafntefli og Skotlandi mistekst að vinna Færeyjar í Þórshöfn eða ef Skotar tapa.

Á laugardaginn vann Danmörk 0-4 sigur á Moldóvu. Danir jöfnuðu þar með met Serbíu og Svartfjallalands frá því í undankeppni HM 2006 með því að halda hreinu í fyrstu sjö leikjum sínum í undankeppni.

Árið 2021 hefur verið frábært fyrir danska landsliðið. Sem frægt er komst það í undanúrslit á EM, þrátt fyrir áfallið sem dundi yfir þegar Christian Eriksen fór í hjartastopp í leiknum gegn Finnlandi.

Danir hafa spilað fimmtán leiki á þessu ári, unnið ellefu, gert eitt jafntefli og tapað þremur. Markatalan er 41-8.

Leikur Danmerkur og Austurríkis hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×