Innlent

Erna fylgir Birgi ekki í Sjálfstæðisflokkinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Erna Bjarnadóttir skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi í nýafstöðunum þingkosningum. Birgir Þórarinsson skipaði efsta sæti listans.
Erna Bjarnadóttir skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi í nýafstöðunum þingkosningum. Birgir Þórarinsson skipaði efsta sæti listans. Vísir

Erna Bjarnadóttir ætlar ekki að fylgja Birgi Þórarinssyni og verða varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu. Birgir gaf í skyn yfirlýsingu um helgina að Erna ætlaði að fylgja honum úr Miðflokknum til Sjálfstæðisflokksins

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hafnaði hún því að hún yrði varaþingmaður flokksins.

Í grein í Morgunblaðinu á laugardag hélt Birgir því fram að Erna styddi hann í þeirri ákvörðun sinni að skipta um flokk. Erna sagðist skilja að sjálfstæðismenn hefðu lagt fast að Birgi að reyna að fá sig með sér. Einhverjir hafi rætt við sig um að skipta yfir líka en hún vildi ekki upplýsa hverjir það voru.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í gær að vistaskiptin hefðu verið að frumkvæði Birgis sjálfs. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafði áður gert að því skóna að sjálfstæðismenn hefðu lagt á ráðin um að fá Birgi yfir til sín til að koma höggi á Miðflokkinn.

Hún sagðist ekki ósátt við Birgi að skipta um lið. Hann væri að fylgja sinni sannfæringu og pólitísku sýn.

„Ég legg það ekki í vana minn að vera ósátt við fólk að fylgja sinni sannfæringu. Ég ætla bara að fá að fylgja minni og ég er ekkert að fara í Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði hún.

Auðvitað hafi henni brugðið við að Birgir hyrfi frá Miðflokknum eftir að þau háðu langa og stranga kosningabaráttu saman. Hún hafi fengið að heyra frá Birgi um atburði í kringum Klaustursmálið svonefnda en Birgir vísaði til samstarfsörðugleika innan flokksins eftir það um ákvörðun sína að yfirgefa Miðflokkinn.

Hún sagði að Birgir hefði einnig deilt með sér þeirri upplifun að unnið væri gegn honum innan flokksins.

„Það beindist ekkert svona að mér. Ég hef aldrei litið þannig á,“ sagði Erna.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.