Fótbolti

Yngstur til að spila í atvinnumannadeild í Bandaríkjunum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hinn þrettán ára gamli Axel Kei.
Hinn þrettán ára gamli Axel Kei. Twitter

Hinn þrettán ára gamli Axel Kei fékk nafn sitt ritað á spjöld sögunnar þegar hann kom inn á sem varamaður í bandarísku B-deildinni í fótbolta í gær.

Kei varð þar með yngsti íþróttamaðurinn til að taka þátt í atvinnumannadeild í Bandaríkjunum en Kei er 13 ára og 282 daga gamall, fæddur þann 30.desember árið 2007 á Fílabeinsströndinni.

Kei er á mála hjá bandaríska úrvalsdeildarliðinu Real Salt Lake en spilaði í gær fyrir Real Monarchs sem leikur í B-deildinni. Hann kom þá inn af bekknum fyrir Bobby Wood sem á fjölda leikja fyrir bandaríska landsliðið.

Þrátt fyrir að vera fæddur á Fílabeinsströndinni fluttist Kei ungur til Bandaríkjanna og hefur æft með yngri landsliðum Bandaríkjanna.

Yngsti leikmaðurinn til að leika í MLS deildinni er Bandaríkjamaðurinn Freddy Adu sem var aðeins 14 ára gamall þegar hann þreytti frumraun sína fyrir DC United árið 2004.

Óhætt er að segja að ferill Adu hafi síðan verið nær samfelld sorgarsaga en þegar hann var 30 ára samdi hann við sænska C-deildarliðið Österlen eftir að hafa ferðast víða um heim og mestmegnis leikið í neðri deildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×