Enski boltinn

Sex ár í dag frá mögu­lega bestu ráðningunni í sögu Liver­pool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar einum af mörgum sigrum sínum sem knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp fagnar einum af mörgum sigrum sínum sem knattspyrnustjóri Liverpool. Getty/Michael Regan

Liverpool samfélagið heldur örugglega upp á daginn því það var á þessum degi fyrir aðeins sex árum sem allt breyttist á Anfield.

8. október 2015 var Jürgen Klopp ráðinn sem nýr knattspyrnustjóri Liverpool en Þjóðverjinn brosmildi mætti með þungarokksfótboltann til Bítlaborgarinnar.

Síðan þá hefur félagið unnið Meistaradeildina og endað þrjátíu ára bið eftir enska meistaratitlinum.

Með því varð Klopp fyrsti knattspyrnustjórinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem vinnur ensku deildina og Meistaradeildina á fyrstu fjórum árum sínum í starfi.

Það mun flestir eftir fyrsta blaðamannafundi Jürgen Klopp eftir að hann tók við en þar kallaði hann sig „The Normal One“ eða hinn venjulega. Var vísun í Jose Mourinho sem kallaði sig hinn sérstaka eða „The Special One" þegar hann mætti í ensku úrvalsdeildina á sínum tíma.

Jürgen Klopp er nú á sínu sjötta fulla tímabili með Liverpool. Hann tók við í október 2015 eins og áður sagði og liðið endaði í áttunda sæti á þeirri leiktíð.

Næsti tveir leiktíðir varð Liverpool í fjórða sæti og svo í öðru sæti eftir æsispenanndi keppni við Manchester City 2018-19. Tímabilið eftir vann Liverpool síðan yfirburðasigur í ensku úrvalsdeildinni og enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í þrjátíu ár.

Liverpool náði þriðja sætinu á síðustu leiktíð með frábærum endaspretti eftir annars mikið meiðslatímabil þar sem stefndi um tíma að það yrði enginn Meistaradeildarfótbolti á Anfield í vetur.

Nú er Liverpool liðið í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir Chelsea og stigi á undan Manchester liðunum báðum og nágrönnum sínum í Everton.

Á þessum árum hefur Klopp komið Liverpool í þrjá úrslitaleiki í Evrópu og undir hans stjórn varð liðið líka heimsmeistari félagsliða.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit frá Liverpool yfir tímann með Klopp í stjórastólnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.