Erlent

Stjórnskipunar­dóm­stóll Pól­lands segir Evrópu­lög ekki sam­rýmast stjórnar­skránni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sebastian Kaleta, aðstoðardómsmálaráðherra, ræddi við blaðamenn í gær vegna beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að Evrópudómstóllinn sekti stjórnvöld í Póllandi fyrir að vera ekki búin að leggja af eftirlitsnefnd með störfum hæstaréttardómara.
Sebastian Kaleta, aðstoðardómsmálaráðherra, ræddi við blaðamenn í gær vegna beiðni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að Evrópudómstóllinn sekti stjórnvöld í Póllandi fyrir að vera ekki búin að leggja af eftirlitsnefnd með störfum hæstaréttardómara. epa/Leszek Szymanski

Stjórnskipunardómstóll Póllands hefur komist að þeirri niðurstöðu að sum Evrópulög samrýmist ekki stjórnarskrá landsins. Dómstóllinn segir enn fremur að stofnanir Evrópu seilist lengra en valdheimildir þeirra heimila.

Fregnirnar hafa valdið nokkrum titringi og hefur Guardian eftir René Repasi, prófessor í alþjóða- og Evrópulögum við Erasmus-háskólann í Rotterdam, að um sér að ræða „lagalega“ uppreisn.

Lögmæti dómstólsins hefur verið dregið í efa í kjölfar fjölda pólitískra skipana dómara, sem eru sagðir hallir undir flokkinn Lög og réttlæti, sem nú fer með stjórn landsins. 

„Vissulega er þetta yfirtekinn dómstóll en þetta er lengsta skrefið sem dómstóll ríkis hefur tekið í átt að lagalegum aðskilnaði frá Evrópusambandinu,“ segir Repasi.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar ákvörðunar dómstólsins og lýst yfir verulegum áhyggjum af þróun mála. Þá ítrekar hún að Evrópulög gangi framar landslögum, þeirra á meðal stjórnarskrárákvæðum.

Í yfirlýsingunni segir einnig að úrskurðir Evrópudómstólsins séu bindandi fyrir stjórnvöld allra aðildarríkja Evrópusambandsins og dómstóla ríkjanna. Framkvæmdastjórnin sagðist ekki myndu hika við að nýta sér vald sitt til að tryggja samfellu í framkvæmd löggjafar sambandsins.

Skoðanakannanir í Póllandi sýna að 80 prósent þjóðarinnar styðja aðild að Evrópusambandinu en stjórnvöld í landinu hafa engu að síður staðið í óformlegu stríði við sambandið og gert ýmsar lagabreytingar sem þykja ætlaðar til að koma hömlum á dómstóla og fjölmiðla.

Þá hafa þau sömuleiðis tekið afstöðu gegn réttindum hinsegin fólks og meðal annars greint frá fyrirætlunum um að lýsa landið „hinsegin-laust“ svæði.

Paolo Gentiloni, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórninni, sagði í síðasta mánuði að sú vegferð sem Pólland væri á gæti endað með því að hafa áhrif á útgreiðslu endurreisnarsjóðs til handa ríkinu, sem enn hefur ekki verið greiddur út.

Stærð sjóðsins eru 57 milljarðar evra. Stjórnvöld í Póllandi brugðust harkalega við yfirlýsingu Gentiloni og sögðu hana „fjárkúgun“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×