Enski boltinn

Leikmaður Palace borgar manni sem hann gerði heyrnarlausan bætur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Odsonne Édouard hefur loksins greitt manni sem hann gerði heyrnarlausan fyrir fjórum árum bætur.
Odsonne Édouard hefur loksins greitt manni sem hann gerði heyrnarlausan fyrir fjórum árum bætur. getty/Sebastian Frej

Odsonne Édouard, leikmaður Crystal Palace, hefur greitt manni bætur sem missti heyrnina á öðru eyranu eftir viðskipti við leikmanninn.

Árið 2017 skaut Édouard Francis Guiral í eyrað með loftriffli með þeim afleiðingum að hann missti heyrn á öðru eyranu. Á þeim tíma var Édouard á láni hjá Toulouse frá Paris Saint-Germain.

Édouard fékk fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða Guiral bætur sem hann gerði ekki fyrr en nú. Edouard greiddi Guiral rúmlega 3,5 milljónir króna í skaðabætur.

Lögmenn Édouards héldu því fram að engar haldbærar sannanir væru fyrir því að hann hefði hleypt af en dómstóll komst að annarri niðurstöðu.

„Þann 11. febrúar 2017 gekk í rólegheitum í Busca hverfinu í Toulouse þegar bíll var stöðvaður. Bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna, ég hélt að hann vantaði einhverjar upplýsingar. Ég setti eyrað upp að rúðunni og svo heyrði ég hvell. Ég féll í jörðina og það blæddi úr eyranu á mér. Hann leit á mig án þess að segja neitt og ók í burtu,“ sagði Guiral er hann var beðinn um að lýsa atvikinu. Auk þess að vera heyrnarlaus á öðru eyranu er Guiral með skert jafnvægi eftir að Édouard skaut hann.

Édouard trassaði að borga sektina og það var ekki fyrr en Palace blandaði sér í málið að hann gerði það loksins.

Palace keypti Édouard frá Celtic á átján milljónir punda á lokadegi félagaskiptagluggans. Hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir Palace, í 3-0 sigri á Tottenham, 11. september.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.