Erlent

Segja ankeri mögulega hafa gert gat á olíuleiðsluna

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk að vinna við hreinsunarstörf í Kaliforníu.
Fólk að vinna við hreinsunarstörf í Kaliforníu. AP/Eugene Garcia

Rannsakendur telja mögulegt að ankeri skips hafi dregist eftir hafsbotninum og krækst í olíuleiðslu undan ströndum Kaliforníu. Ankerið hafi rifið gat á leiðsluna og þess vegna hafi mikið magn olíu lekið út í sjóinn.

Eigendur fyrirtækisins Amplify Energy Corp. hafa einnig verið sakaðir um hæg handatök. Bæði eiga þeir ekki að hafa lokað leiðslunni þegar fyrstu viðvaranir bárust um mögulegan leka og þar að auki tilkynntu þeir mögulega ekki lekann fyrr en nokkrum klukkustundum seinna.

Spjótin hafa einnig beinst að Strandgæslu Bandaríkjanna, þar sem tilkynningar um mögulegan olíuleka bárust þangað á síðasta föstudagskvöld. Þrátt fyrir það voru menn ekki sendir á vettvang fyrr en næsta dag, til að kanna hvort ábendingarnar væru réttar.

Kafarar fundu skemmdir á leiðslu Amplify Energy Corp. Þeir sáu að leiðslan hafði færst úr stað um meira en 30 metra og fundu stóra sprungu á henni, samkvæmt frétt LA Times. Leiðslan er 12,7 millimetra þykk og úr stáli.

Talið er að tæplega 600 þúsund lítrar af hráolíu hafi lekið út í sjóinn.

Viðvörunarbjöllur hringdu í stjórnherbergi Ampilfy klukkan 2:30 aðfaranótt laugardags um að þrýstingur í leiðslunni hefði lækkað, til marks um mögulegan leka. Það var ekki fyrr en klukkan sex um morguninn, þremur og hálfum tíma síðar, sem slökkt var á leiðslunni.

Þar að auki tilkynntu starfsmenn fyrirtækisins lekann ekki til Strandgæslunnar fyrr en þremur tímum eftir að leiðslunni var lokað, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Sérfræðingur sem fréttaveitan ræddi við segir undarlegt að ekki hafi verið brugðist fyrr við viðvörunarbjöllum og lekanum. Kerfi og reglur í kringum olíuleiðslur séu hönnuð til að virka fljótt og ef einhver vafi sé varðandi leka, sé viðmiðið að slökkva alltaf á leiðslunni frekar en að halda henni opinni.

Rannsakendur hafa ekki beint sjónum sínum að einhverju ákveðnu skipi vegna lekans. Langar biðraðir gámaskipa eftir löndun geta myndast á svæðinu. Þegar slíkar raðir myndast útvega hafnarverðir skipstjórum skipa hnit þar sem þeir eiga að varpa ankeri en AP segir skipin færast reglulega vegna vinda og vegna þess að ankeri nái ekki festu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×