Fótbolti

Mbappé óskaði eftir sölu frá PSG í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kylian Mbappé fer að öllum líkindum frá Paris Saint-Germain eftir tímabilið.
Kylian Mbappé fer að öllum líkindum frá Paris Saint-Germain eftir tímabilið. getty/Catherine Steenkeste

Franski landsliðsmaðurinn Kylian Mbappé óskaði eftir því að vera seldur frá Paris Saint-Germain í sumar.

Í samtali við RMC sagði Mbappé að hann hafi viljað fara frá PSG eftir að hann ákvað að framlengja ekki samning sinn við félagið. Hann rennur út næsta sumar.

„Ég óskaði eftir því að fá að fara. Þegar ég ákvað að ég ætlaði ekki framlengja samninginn vildi ég að PSG fengi pening fyrir mig svo félagið gæti keypt annan leikmann í staðinn,“ sagði Mbappé.

„Félagið hefur gefið mér margt. Ég hef alltaf verið ánægður þau fjögur ár sem ég hef verið hérna og er enn. Ég vildi að allir kæmu sterkari út úr þessu. En ég sagðist vera áfram ef þeir vildu ekki selja mig.“

Allar líkur eru á því að Real Madrid verði næsti áfangastaður á ferli Mbappés. Hann hefur lengi verið orðaður við spænska stórveldið.

Mbappé lék allan leikinn þegar PSG tapaði óvænt fyrir Rennes, 2-0, í frönsku úrvalsdeildinni í gær. Hann hefur skorað fjögur mörk og gefið fimm stoðsendingar í öllum keppnum á tímabilinu.

Hinn 22 ára Mbappé hefur leikið með PSG frá 2017. Hann hefur skorað 136 mörk í 182 leikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×