Fótbolti

Neitar því að hafa verið að leika sím­talið við Koeman þegar hann fagnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar marki sínu fyrir Atletico Madrid á móti Barcelona með því að þykjast fara í símann.
Luis Suarez fagnar marki sínu fyrir Atletico Madrid á móti Barcelona með því að þykjast fara í símann. Getty/David S. Bustamante

Luis Suarez var maðurinn á bak við sigur Atletico Madrid á Barcelona í spænsku deildinni um helgina og auðvitað þótti „ekki fagn“ hans senda skýr skilaboð til hans gamla félags.

Suarez lagði upp fyrra markið fyrir Thomas Lemar á 23. mínútu og skoraði síðan það seinna sjálfur mínútu fyrir hálfleik.

Suarez fagnaði ekki marki sínu beint en þóttist samt vera að tala í símann þegar hann hljóp til baka og horfði um leið upp í stúku á átt að Ronald Koeman, þjálfara Barcelona.

Eitt af fyrstu verkum Koeman þegar hann tók við liði Barcelona var að losa sig við Suarez sem fór fyrir lítið til Atletico Madrid.

Á sama tíma og allt hefur gengið á afturfótunum hjá Barcelona liðinu fann Suarez sér frábæran stað í Madrid en liðið varð spænskur meistari á hans fyrsta tímabili þar.

Flestir héldu að Suarez væri að vísa í frægt símtal frá Koeman sem tilkynnti honum víst símleiðis að hann vildi ekki hafa hann áfram í Barcelona.

Suarez hafnaði því hins vegar í viðtali eftir leikinn. Suarez sagðist þar að hann hafi verið í raun að senda fjölskyldumeðlimum sínum skilaboð en ekki Koeman.

„Þetta var fyrir fólkið sem veit að ég er með sama númer svo þeir viti að þau geti áfram náð í mig,“ sagði Luis Suarez við Movistar.

„Þetta var eitthvað sem ég hafði ákveðið með krökkunum mínum,“ bætti Suarez við.

„Ég var búinn að ákveða það að ef ég skoraði þá ætlaði ég ekki að fagna,“ sagði Suarez en það eina sem hann gerði eftir markið var að þykjast fara í símann.

Luis Suarez hefur skorað fjögur mörk í fyrstu átta deildarleikjum en þetta var fyrsti leikur hans með bæði mark og stoðsendingu. Hann skoraði alls 21 mark í 32 deildarleikjum á sínu fyrstu leiktíð eftir að Koeman henti honum í ruslið hjá Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×