Erlent

Minnst fimm eru látin: Mann­skæðasta á­rásin í Kabúl frá brott­för Banda­ríkja­hers

Árni Sæberg skrifar
Talibanar við Eidgah moskuna þar sem fimm almennir borgarar létu lífið í sprengjuárás í dag.
Talibanar við Eidgah moskuna þar sem fimm almennir borgarar létu lífið í sprengjuárás í dag. AP Photo/Felipe Dana

Minnst fimm almennir borgarar létu lífið í sprengjuárás við mosku í Kabúl í dag. Um er að ræða mannskæðustu árásina í höfuðborg Afganistan síðan Bandaríkjaher yfirgaf landið í lok ágúst síðastliðins.

Qari Saeed Khosti, talsmaður innanríkisráðuneytis Afganistan, staðfesti árásina sem gerð var við inngang Eidgah moskunnar á meðan minningarathöfn fyrir móður Zabihullah Mujahid, helsta talsmanns Talibana, fór þar fram.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en að sögn The Guardian féll grunur fljótt á vígamenn Íslamska ríkisins sem hafa framið fjölda voðaverka í Afganistan undanfarnar vikur.

Emergency NGO, neyðarspítali í Kabúl, tilkynnti á Twitter í dag að fjórir hafi sótt læknisaðstoð þar eftir sprenginguna.

Talibanar umkringdu svæðið í kringum moskuna fljótt og hófust handa við tiltekt. Að sögn The Guardian eru engin ummerki um sprengingu lengur á vettvangi utan smávægilegra skemmda á skreytingu á moskunni.

Þá segir að árásin sé til marks um aukin vandræði Talibana við að halda stjórn í landinu, aðeins örfáum vikum eftir að þeir náðu völdum aftur eftir tuttugu ára bið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×