Fótbolti

Elías Rafn hélt hreinu enn á ný er Mid­tjylland valtaði yfir AGF

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Rafn (t.v.) hefur staðið sig mjög vel á leiktíðinni.
Elías Rafn (t.v.) hefur staðið sig mjög vel á leiktíðinni. @fcmidtjylland

Topplið dönsku úrvalsdeildarinnar, Midtjylland, vann 4-0 sigur á Íslendingaliði AGF í dag. Elías Rafn Ólafsson heldur sæti sínu í liði toppliðsins og virðist vart geta fengið á sig mark þessa dagana.

Elías Rafn fékk óvænt tækifæri fyrr á þessari leiktíð og hefur svo sannarlega gripið það. Var markvörðurinn til að mynda valinn sem leikmaður september mánaðar í dönsku úrvalsdeildinni á dögunum.

Hann stóð á milli stanganna er Mikael Neville Anderson og félagar í AGF komu í heimsókn. Jón Dagur Þorsteinsson var ekki í leikmannahóp AGF í dag þar sem hann var í leikbanni.

Leikur dagsins varð aldrei spennandi en Junior Brumado kom heimamönnum yfir á þriðju mínútu og tvöfaldaði forystuna á 18. mínútu. 

Aðeins átta mínútum síðar bætti Paulinho við þriðja markinu og Junior fullkomnaði þrennu sína þegar aðeins hálftími var liðinn af leiknum, staðan þá 4-0 fyrir Midtjylland og reyndust það lokatölur leiksins.

Midtjylland er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 27 stig að loknum 11 leikjum. Liðið hefur aðeins fengið á sig fimm mörk til þessa á leiktíðinni. AGF er á sama tíma í 8. sæti með 12 stig.


Tengdar fréttir

Lék A-landsleiki í blaki áður en hann valdi fótboltann

Elías Rafn Ólafsson, markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Midtjylland og U-21 árs landsliðsins, á sér bakgrunn í öðrum íþróttum en fótbolta og á meira að segja A-landsleiki í blaki á ferilskránni.

„Eitt stærsta augnablikið á mínum ferli“

Markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson hefur átt eftirminnilega innkomu í lið Midtjylland og haldið hreinu í fimm af fyrstu sex leikjum sínum fyrir það. Hann vonast til að vera valinn í A-landsliðið fyrir næstu leiki þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×