Erlent

Leita karlmanns á sextugsaldri vegna sprengingarinnar í Gautaborg

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglu- og sjúkraflutningafólk á vettvangi sprengingarinnar í miðborg Gautaborgar á þriðjudag.
Lögreglu- og sjúkraflutningafólk á vettvangi sprengingarinnar í miðborg Gautaborgar á þriðjudag. Vísir/EPA

Lögreglan í Gautaborg leitar nú karlmanns á sextugsaldri í tengslum við öfluga sprengingu í fjölbýlishúsi í miðborginni á þriðjudag. Til stóð að bera manninn út úr íbúð sinni í húsinu sama dag.

Sænska ríkisútvarpið segir að útburðurinn sé stærsta vísbendingin í umfangsmikilli rannsókn málsins til þessa. Karlmaðurinn, sem er 55 ára gamall, sé nú eftirlýstur. 

Saksóknarar hafa ekki viljað tjá sig um málið. Þeir boða formlega yfirlýsingu síðar í dag. Gautaborgarpósturinn segir að maðurinn sem er eftirlýstur eigi ekki sakaferil að baki. Hann hafi þó verið kærður fyrir áreitni í fyrra.

Strax á þriðjudag byrjaði lögreglu að gruna að sprengju hefði verið komið fyrir við húsið. Sprengingin varð snemma morguns og særðust fjórir alvarlega en mun fleiri voru fluttir á sjúkrahús með áverka.

Glæpagengi hafa staðið fyrir ýmis konar sprengju- og skotárásum í Svíþjóð undanfarin ár. Lögregla segir nú að ekki sé talið að sprengingin hafi tengst slíkjum gengjum, að sögn Aftonbladets.


Tengdar fréttir

Kanna hvort sprengju hafi verið komið fyrir í Gautaborg

Lögreglan í Gautaborg rannsakar nú hvort að sprengju kunni að hafa verið komið fyrir við fjölbýlishús þar sem mikil sprenging varð snemma í morgun. Fjórir íbúar hússins eru alvarlega slasaðir en að minnsta kosti sextán voru fluttir á sjúkrahús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×