Fótbolti

Lék A-landsleiki í blaki áður en hann valdi fótboltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson í leik með U-17 ára landsliðinu í blaki á móti á Englandi 2015.
Elías Rafn Ólafsson í leik með U-17 ára landsliðinu í blaki á móti á Englandi 2015. blaksamband íslands

Elías Rafn Ólafsson, markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Midtjylland og U-21 árs landsliðsins, á sér bakgrunn í öðrum íþróttum en fótbolta og á meira að segja A-landsleiki í blaki á ferilskránni.

Elías hefur slegið í gegn með Midtjylland á undanförnum vikum og haldið hreinu í fimm af fyrstu sex leikjum sínum fyrir aðallið félagsins.

Hann æfði þrjár íþróttir á yngri árum, náði langt í tveimur þeirra en valdi á endanum fótboltann.

„Ég æfði bæði blak og handbolta þegar ég var yngri. Blak aðeins lengur en ég svo valdi ég fótbolta sem ég sé alls ekki eftir,“ sagði Elías í samtali við Vísi í gær.

Hann æfði blak með HK, lék með yngri landsliðunum og tvo A-landsleiki. Þeir komu báðir gegn Færeyjum í maí 2015 í undirbúningi fyrir Smáþjóðaleikana sem voru haldnir hér á landi. Þá var Elías aðeins fimmtán ára.

Þrátt fyrir að vera kominn í A-landsliðið þetta ungur varð blakið ekki fyrir valinu heldur fótboltinn.

„Á sínum tíma var erfitt að skilja við blakið en það var engin spurning hvað ég átti að velja. Ég vissi það alveg sjálfur,“ sagði Elías. Hann er þó viss um að hann hefði einnig gert það gott í blakinu.

„Ég hefði án efa náð langt í því líka en ég er ánægður með ákvörðunina,“ sagði Elías.

Elías ásamt bræðrum sínum, Björgvini Inga (grænklæddur) og Gunnari Heimi (nr. 2). Með þeim á myndinni eru bræðurnir Máni (nr. 18) og Markús Ingi (nr. 4) Matthíassynir.blaksamband íslands

Þess má geta að báðir foreldarar Elíasar, Ólafur Heimir Guðmundsson og Ingibjörg Gunnarsdóttir léku fyrir A-landsliðið í blaki. Ólafur lék 64 landsleiki og Ingibjörg 54.

Elías hefur leikið sjö leiki fyrir U-21 árs landsliðið í fótbolta og var valinn í A-landsliðið fyrir tvo vináttulandsleiki í Bandaríkjunum í fyrra.

Hópur A-landsliðsins fyrir leikina gegn Liechtenstein og Armeníu í undankeppni HM í næsta mánuði verður kynntur á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.