Erlent

Eggi kastað í Macron

Samúel Karl Ólason skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AP/Ludovic Marin

Mótmælandi kastaði eggi í Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Samhliða því kallaði hann: „Viva la revolution“ eða „lengi lifi byltingin“. Eggið brotnaði ekki heldur skoppaði af öxl forsetans.

Macron var í borginni Lyon á ráðstefnu um alþjóðlega matarlist.

Myndböndum af egginu skoppa af forsetanum hefur verið dreift á internetinu en þar má sjá tvo lífverði verja forsetann um leið og þeir verða eggsins varir. AP fréttaveitan hefur þó eftir blaðamönnum á svæðinu að Macron hafi sagt að ef maðurinn sem kastaði egginu vilji ræða við hann, megi hann það.

Ekki liggur þó fyrir hvort Macron ræddi við manninn en Reuters segir hann verið handtekinn í kjölfar kastsins, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Í sumar löðrungaði maður Macron í bænum Tain-l‘Hermitage, sem er skammt frá Lyon. Þá var Macron að heilsa fólki sem hafði safnast saman til að berja hann augum. Macron bauð manninum hendina en fékk kinnhest í staðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×