Fótbolti

Arnar og Eiður hringdu og voru mjög hreinskilnir

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Daði Böðvarsson lék sinn 60. A-landsleik gegn Póllandi í júní, í 2-2 jafntefli.
Jón Daði Böðvarsson lék sinn 60. A-landsleik gegn Póllandi í júní, í 2-2 jafntefli. Getty

Jón Daði Böðvarsson segist staðráðinn í að vinna sér sæti á ný í íslenska landsliðinu í fótbolta. Hann sýnir ákvörðun Arnars Þórs Viðarssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen, um að velja hann ekki í síðasta landsliðshóp, hins vegar skilning.

Staða Jóns Daða hjá Millwall er afar slæm og hann hefur ekki einu sinni fengið að sitja á varamannabekknum hjá liðinu í fyrstu níu umferðunum í ensku B-deildinni.

Staða þessa 29 ára gamla leikmanns, sem spilað hefur 60 A-landsleiki, hefur því ekkert batnað frá því að síðasti landsliðshópur var valinn og sótti eitt stig úr leikjum sínum við Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskaland í byrjun mánaðarins.

Í vikunni verður næsti landsliðshópur valinn og ólíklegt verður að teljast að Jón Daði verði eitthvað frekar í þeim hópi. Hann fékk útskýringar frá þjálfurunum áður en síðasti hópur var valinn:

„Arnar og Eiður hringdu í mig og voru bara mjög hreinskilnir. Þeir vilja náttúrulega að ég sé almennilega inni í myndinni hjá klúbbnum mínum, og að menn séu í almennilegu leikformi. Svo vitum við líka að það eru ungir og spennandi leikmenn að koma upp, og það er flott fyrir þá að fá tækifæri. Það eru breyttir tímar.

Ég er ekki bitur yfir þessu. Ég þarf bara að koma mér í almennilegan stöðugleika þar sem ég er að spila fótbolta reglulega, svo ég geti komið mér inn í hlutina aftur í landsliðinu,“ segir Jón Daði sem bítur úr nálinni með að hafa ekki komist að hjá nýju félagi í sumar.

Ekki gott fyrir andlega heilsu að vera svona fastur í hjólförum

 Ekkert hefur gengið upp þann tíma sem hann hefur verið hjá Millwall:

„Þetta eru bara búin að vera vonbrigði. Þetta er þriðja árið mitt hjá Millwall og þetta er bara ákveðið umhverfi; lið, stíll og klúbbur, sem passar mér ekki. Á löngum fótboltaferli getur maður lent á svona stað, þar sem ekkert gengur upp. Þetta er örugglega mjög mikill lærdómur en það myndi gera mér mjög gott að komast í annað umhverfi og finna aftur ástríðuna fyrir fótboltanum. Þegar maður er svona lengi fastur í ákveðnum hjólförum þá er það ekki gott fyrir andlega heilsu. Maður er í þessu til að spila fótbolta,“ segir Jón Daði.

Viss um að ég mun koma mér aftur í landsliðið

Ákvörðun landsliðsþjálfaranna kom honum ekki á óvart en markmiðið er skýrt um að spila sem fyrst aftur í bláu landsliðstreyjunni:

„Ég bjóst svolítið við þessu. Þetta gat ekki haldið svona áfram endalaust. Þegar maður er ekki almennilega inni í sínu félagsliði þá kemur leikform inn í reikninginn líka. Þú vilt kannski frekar hafa unga og ferska leikmenn sem eru að spila hverja einustu helgi. Þetta er auðvitað ömurlegt og ég er að sjálfsögðu svekktur en ég er viss um að ég mun koma mér aftur í þennan hóp á endanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×