Fótbolti

Ísak opnaði markareikninginn í stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísak Bergmann opnaði markareikning sinn fyrir FC København.
Ísak Bergmann opnaði markareikning sinn fyrir FC København. Lars Ronbog/Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sitt fyrsta mark fyrir FC København þegar að liðið vann 5-1 stórsigur gegn Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. 

Jens Stage kom Kaupmannahafnarliðinu í 1-0 eftir tæplega tuttugu mínútna leik og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Mads Thychosen varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 50. mínútu og staðan því orðin 2-0, áður en Adamo Nagalo minnkaði muninn fyrir Nordsjælland tveimur mínútum seinna.

Kevin Diks og Pep Biel breyttu svo stöðunni í 4-1 með sitthvoru markinu með stuttu millibili, áður en Ísak Bergmann gerði út um leikinn á 80. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður þremur mínútum áður.

Ísak og félagar eru nú með 23 stig í öðru sæti deildarinnar eftir tíu leiki. Nordsjælland heur 13 stig í fimmta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×