Fótbolti

Fyrsta tap United á tímabilinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
María Þórisdóttir í baráttu við Pernille Harder.
María Þórisdóttir í baráttu við Pernille Harder. Alex Livesey/Getty Images

María Þórisdóttir og liðsfélagar hennar í Manchester United töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar að liðið tók á móti ríkjandi Englandsmeisturum Chelsea. Lokatölur 6-1, en María spilaði allan leikinn í hjarta varnar United.

Fran Kirby kom Chelsea yfir strax á annarri mínútu eftir stoðsengingu frá Samantha Kerr áður en Pernille Harder tvöfaldaði forskot gestanna á 24. mínútu.

Kirby þakkaði svo Kerr fyrir stoðsendinguna fyrr í leiknum með því að leggja upp fyrir þá síðarnefndu stuttu fyrir hálfleik og staðan því 3-0 þegar að liðin gengu til búningsherbergja.

Alessia Russo kom inn á sem varamaður fyrir Manchester United í hálfleik og hún minnkaði muninn þegar að seinni hálfleikur var aðeins tveggja mínútna gamall.

Fran Kirby var þó ekki búin að þakka Samantha Kerr fyrir stoðsendinguna í upphafi leiks nægilega mikið. Kirby lagði upp annað mark hennar, og fjórða mark Chelsea á 51. mínútu.

Drew Spence skoraði svo fimmta mark meistaranna og á 88. mínútu áður en Jessie Fleming gerði algjörlega út um leikinn þegar að þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Niðurstaðan því  6-1 sigur og bæði lið hafa nú unnið tvo af fyrstu þrem leikjum sínum á tímabilinu og eru jöfn að stigum með sex stig hvort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×