Fótbolti

Brynjar Björn: Skrýtið að helmingi heimaleikja sé lokið þegar fjórir mánuðir eru eftir

Árni Jóhannsson skrifar
Brynjar Björn segir fallið í dag vera lykkju á vegferð HK
Brynjar Björn segir fallið í dag vera lykkju á vegferð HK Vilhelm Gunnarsson

HK féll úr Pepsi Max deildinni í knattspyrnu karla í dag þegar þeir töpuðu fyrir Breiðablik 3-0 í lokaumferð mótsins. ÍA vann sinn leik á móti Keflavík og því þurfa HK-ingar að bíta súra eplið. Brynjar Björn fór yfir tímabilið og vegferð HK með blaðamanni eftir leikinn.

„Við hefðum getað gert marg betur í dag“, sagði súr þjálfari HK þegar blaðamaður náði á hann eftir leik og eftir að lið hans HK var fallið úr efstu deild.

„Leikurinn var á svona vegferð eins og maður bjóst við. Blikarnir voru meira með boltann og Arnar [Freyr Ólafsson] þurfti að taka á honum stóra sínum einu sinni eða tvisvar. Við áttum hálffæri og hálf möguleika þess á milli en eftir að Blikarnir skora fyrsta markið þá áttum við enga leið til baka. Hvað veldur? Það er einhver spenna varðandi stöðuna á öðrum stöðum, við vissum það ekki á neinum tímapunkti þannig að við þurftum bara að halda áfram og reyna að finna markið og þá bara opnaðist leikur okkar algjörlega fyrir Blika sem eru góðir þegar staðan er þannig og bæta við tveimur mörkum.“

Brynjar Björn var þá beðinn um að gera upp tímabilið með tilliti til þess hvort það væru einhver augnablik sem hann myndi líta til baka á og svekkja sig.

„Það er hægt að fara yfir tímabilið og augnablikin á því endalaust. Ég held samt heilt yfir, þá náðum við aldrei neinum meðbyr á mótinu. Eigum svo sem ágætis byrjun og hefðum geta unnið fyrsta leik á móti KA á lokamínútunum. Að sama skapi þá eigum við fimm heimaleiki á fyrsta mánuði mótsins. Þá erum við búnir með helming heimaleikjanna og fjórir mánuðir eftir af mótinu. Það fannst mér skrýtið. Það er ekki nákvæmlega það sem verður okkur að falli en kannski mest það sem klikkar er að við fáum engan meðbyr í mótinu. Við vinnum aldrei tvo leiki í röð og náum sigrum hér og þar sem komu okkur í stöðuna okkar í dag. Við gerðum vel að koma okkur í þessa stöðu sem við vorum í í dag en heilt yfir vantaði meðbyrinn og hugarfarið að klára leiki þegar við þurftum. Við gerðum það ekki.“

Brynjar var spurður að því hvort einhverjar fréttir væru af hans málum og í kjölfarið hvenær væri farið að hugsa út í næsta tímabil.

„Það eru 20 mínútur síðan leik lauk og eina sem ég veit er að ég á eftir tvö ár af samningnum hjá HK. Það verður bara fljótlega eftir helgi. Knattspyrnan í HK, síðan ég og Viktor tókum við, er komin með góða umgjörð og gott utanumhald. Vissulega vildum við halda áfram á beinu brautinni í efstu deild og reyna að byggja upp lið áfram í efstu deild. Ég held að í stærri myndinni, eftir 2-6 ár, þá verður HK með gott lið í efstu deild og fallið í dag er lykkja á þeirri vegferð í stóra samhenginu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.