Innlent

Á­nægja með göngu­götur eykst á milli ára

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hluti Laugavegs er göngugata.
Hluti Laugavegs er göngugata. Vísir/Vilhelm

Tæplega 70 prósent Reykvíkinga eru jákvæð gagnvart göngugötum borgarinnar, um tveimur prósentustigum fleiri en árið á undan, samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu sem Reykjavíkurborg lét vinna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Þar kemur fram að 69,3 prósent borgarbúa séu jákvæð gagnvart göngugötum. Það sé aukning um nærri tvö prósentustig frá árinu 2020 og um nærri fimm prósentustig frá árinu 2019, þegar 64,5 prósent borgarbúa kváðust ánægð með göngugötur.

„Sem fyrr eru þau jákvæðust sem heimsækja göngugötur oftast en 86% þeirra sem fara um göngugötur vikulega eða oftar eru jákvæð í garð þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Jákvæðnin ráðandi í öllum hverfum

Í tilkynningu borgarinnar kemur þá fram að 30,3 prósent svarenda teldi göngugötusvæði borgarinnar of lítið. Sá hópur fari töluvert stækkandi milli ára. Árið 2019 hafi hlutfall þeirra sem töldu svæðið of lítið verið 19,3 prósent og árið 2020 var það 23,6 prósent.

Þá séu fleiri jákvæðir gagnvart göngugötum heldur en neikvæðir í öllum hverfum borgarinnar.

„Alls telur mikill meirihluti, eða 70,9%, göngugötur hafa mjög jákvæð eða fremur jákvæð áhrif á mannlíf miðborgarinnar. Tæpur helmingur telur göngugötur hafa jákvæð áhrif á verslun í miðborginni og tveir af hverjum þremur telja þær hafa jákvæð áhrif á veitinga- og matsölustaði í miðborginni.“

Könnunin var lögð fyrir Reykvíkinga í Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu dagana 13. til 26. ágúst 2021. Svarendur eru 18 ára og eldri og úr öllum hverfum borgarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×