Úrslit: Man. Utd. - Aston Villa 0-1 | Fernandes klúðraði víti í uppbótartíma

Cristiano Ronaldo huggar Bruno Fernandes eftir að sá síðarnefndi brenndi af vítaspyrnu.
Cristiano Ronaldo huggar Bruno Fernandes eftir að sá síðarnefndi brenndi af vítaspyrnu. EPA-EFE/Peter Powell

Það var fín stemmning á Old Trafford í Manchester þegar að heimamenn í Manchester United tóku á móti Aston Villa í hádeginu í ensku úrvalsdeildinni. Heimamenn á fínu flugi í deildinni, taplausir, og höfðu sótt þrettán stig í fyrstu fimm leikjunum. Aston Villa höfðu hins vegar farið eilítið hikstandi inn í tímabilið og höfðu náð í sjö stig úr sínum fyrstu fimm leikjum.

Heimamenn byrjuðu leikinn með virkilega sterkt lið. Cristiano Ronaldo var í framlínunni með Bruno Fernandes fyrir aftan sig og Paul Pogba og Mason Greenwood voru á köntunum.

Hjá Aston Villa var Martinez að venju í markinu með Tyrone Mings og Kortney Hause fyrir framan sig í miðvarðastöðunum. Danny Ings og Ollie Watkins leiddu framlínuna.

Það var mikið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Manchester United eilítið meira með boltann án þess þó að skapa sér mikinn fjölda af færum. Heimamenn urðu þó fyrir ákveðnu áfalli þegar að Luke Shaw þurfti að fara útaf vegna meiðsla. Síðar í leiknum þurfti Harry Maguire líka að fara af velli og stuðningsmönnum Ruðu Djöflanna ekki skemmt.

Það voru svo gestirnir sem áttu besta færi fyrri hálfleiks. Douglas Luiz tók horn og fann kollinn á Ezri Konza sem skallaði rétt framhjá.

Í síðari hálfleik var boðið uppá meira af því sama. Heimamenn meira með boltann en Aston Villa voru alltaf hættulegir, sérstaklega í föstum leikatriðum. Það var svo upp úr einu slíku sem Villa komst yfir. Luiz átti þá hornspyrnu sem að Kortney Hause mætti á nærstönginni og skallaði boltann í netið.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna og fengu vítaspyrnu á 93. mínútu leiksins þegar að dæmd var hendi á Hause. Mörgum til mikillar furðu gekk Bruno Fernandes að punktinum og tók vítið en ekki Cristiano Ronaldo.

Fernandes skaut hátt yfir og Aston Villa unnu frábæran sigur og eru með tíu stig eftir sex leiki. United með þrettán stig eftir jafn marga leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira