Innlent

Víkingar streyma í hraðprófin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þessir stuðningsmenn þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi við innganginn í Víkina á morgun til að geta skellt sér á leikinn.
Þessir stuðningsmenn þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi við innganginn í Víkina á morgun til að geta skellt sér á leikinn. Vísir/Vilhelm

Segja má að Fossvogurinn sé á yfirsnúningi fyrir morgundeginum og það tengist ekki á nokkurn hátt Alþingiskosningum. Karlalið Víkings á risastóran möguleika á að tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í þrjátíu ár með sigri á Leikni á heimavelli sínum í Víkinni klukkan 14.

Leikurinn er forvitnilegur fyrir þær sakir að 1500 manns munu koma saman í fyrsta skipti á Íslandi samkvæmt þeirri forsendu að hafa gengist undir hraðpróf. Straumur Víkinga, og einhverra stuðningsmanna Leiknis, í hraðpróf á Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á Suðurlandsbraut hefur verið stöðugur bæði í gær og í dag. 1500 verða saman í einu sóttvarnarhólfi en því til viðbótar bætast við 300 í stæði sem komið hefur verið upp.

Þá má reikna með fjölda barna en börn 15 ára og yngri eru undanþegin fjöldatakmörkunum.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri sýnatöku á Suðurlandsbraut, segir starfsfólk hafa fundið fyrir viðbótinni strax í gær. Um 500 manns hafi mætt í hraðpróf daglega undanfarnar vikur en hafi verið 820 í gær. 1800 hafa boðað komu sína í dag og voru um þúsund búnir um tvöleytið.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við finnum fyrir einhverri aukningu vegna viðburða,“ segir Ingibjörg Salóme.

Hún rekur viðbótina fyrst og fremst til fótboltaleiksins en nefnir þó einnig að einhverjir gætu verið að fara í hraðpróf í tengslum við kosningarnar á morgun.

„Það eru nú þegar komnar 600 skráningar í hraðpróf á morgun,“ segir Ingibjörg en opið verður frá 9-15 á morgun. Á virkum dögum er opið til klukkan 20.

Leikur Víkings og Leiknis hefst klukkan 14 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×