Fótbolti

Koeman sá rautt og sængin nánast uppreidd

Sindri Sverrisson skrifar
Ronald Koeman var svekktur og sár á leiknum við Cadiz í gærkvöld og fékk á endanum rautt spjald eftir mótmæli gegn dómi.
Ronald Koeman var svekktur og sár á leiknum við Cadiz í gærkvöld og fékk á endanum rautt spjald eftir mótmæli gegn dómi. Getty/Jose Breton

Staða Ronalds Koeman sem knattspyrnustjóra Barcelona er í lausu lofti og næstu klukkustundir gætu ráðið úrslitum, segir spænska blaðið Marca.

Koeman fékk að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli í lokin á markalausu jafntefli Barcelona og Cadiz í spænsku 1. deildinni í gærkvöld.

Lið Barcelona var manni færra í 25 mínútur eftir að Frenkie de Jong fékk rautt spjald en sú afsökun virðist duga Koeman skammt og úrslitin bætast við fleiri slæm úrslit í upphafi leiktíðar.

Barcelona hefur aðeins unnið tvo af fimm leikjum sínum í spænsku deildinni til þessa, á fyrsta tímabilinu eftir brotthvarf Lionels Messi, og átti aldri möguleika gegn Bayern München í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni.

Fram undan er stíf dagskrá hjá Börsungum sem gerðu 1-1 jafntefli við Granada á mánudaginn og halda áfram að fá aðeins þrjá daga á milli leikja, fram að landsleikjahléinu sem tekur við 4. október.

Koeman ætlar ekki að gefast upp en ljóst er að staða hans hefur veikst með hverjum leik síðustu vikur.

Marca segir að Barcelona sé með nokkra menn á lista ef ske kynni að félagið telji sig knúið til að segja Koeman upp. Blaðið nefnir í því samhengi Roberto Martínez, Xavi, Antonio Conte og Phillip Cocu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.