Erlent

Biden og Macron vilja byggja upp traust aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden og Emmanuel Macron.
Joe Biden og Emmanuel Macron. EPA/PHIL NOBLE

Sendiherra Frakklands mun snúa aftur til Washington DC í næstu viku. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kallaði sendiherrann heim eftir að Bandaríkjamenn, Ástralar og Bretar tilkynntu nýjan varnarsáttmála.

Sá sáttmáli felur í sér að Ástralar kaupa kjarnorkuknúna kafbáta frá Bandaríkjunum en þá hættu Ástralar við að kaupa rafmagnsknúna kafbáta af Frökkum.

Ráðamenn í Frakklandi brugðust reiðir við þessari tilkynningu. Meðal annars sögðu þeir Bandaríkjamenn hafa stungið þá í bakið og líktu Biden við Donald Trump, fyrrverandi forseta. Eins og áður segir var franski sendiherrann kallaður heim og var það í fyrsta skipti sem það er gert á þeim rúmu tveimur öldum sem ríkin hafa átt í pólitískum samskiptum.

Frakkar eru taldir verða af minnst 66 milljörðum Bandaríkjadala eða yfir 8.500 milljörðum íslenskra króna.

Sjá einnig: Sakar Ástrala og Bandaríkjamenn um tvöfeldni og lygar

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Macron töluðu saman í síma í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu segir að þeir hafi komist að samkomulagi um frekari viðræður og samráð til að tryggja traust milli ríkjanna. Þá ákváðu þeir að hittast í Evrópu í október og ræða frekar saman, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Í yfirlýsingunni segir einnig að Biden og Macron hafi verið sammála um að betra hefði verið að Bandaríkjamenn hefðu rætt málið við bandamenn sína í Evrópu.

Höfðu rætt áhyggjur sínar opinberlega

Ráðamenn í Ástralíu sögðu fyrr í vikunni að ákvörðun þeirra hefði ekki átt að koma Frökkum á óvart. Ástralar hefðu gert áhyggjur sínar af töfum og kostnaði, auk þess sem þeir höfðu áhyggjur af notagildi rafmagnskafbáta í Kyrrahafinu.

Í frétt Reuters segir að þessar áhyggjur hafi verið ræddar í ástralska þinginu á undanförnum árum. Meðal annars um það að samningurinn hafði hækkað úr 40 milljörðum dala í 60 milljarða og það áður en byrjað var að smíða einn einasta kafbát.

Kjarnorkuknúnir kafbátar eru mun öflugri en kafbátar sem eru keyrðir af díselolíu og rafmagni. Hægt er að sigla þeim mun hraðar, lengur og lengra og þar að auki þarf ekki að sigla þeim reglulega við yfirborðið til að hlaða rafgeyma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×