Fótbolti

Gautaborg styður Kolbein og setur upp langtíma áætlun fyrir hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er markahæstur í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.
Kolbeinn Sigþórsson er markahæstur í sögu íslenska landsliðsins ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. vísir/vilhelm

Gautaborg styður við bakið á Kolbeini Sigþórssyni og mun ekki segja samningi hans upp.

Í yfirlýsingu frá Gautaborg kemur fram að félagið hafi rætt ítarlega við Kolbein undanfarnar vikur og hefur sett upp langtíma áætlun fyrir hann.

„Áætlunin er byggð á gildum Gautaborgar og skyldum okkar og ábyrgð sem vinnuveitanda. Hún er einnig byggð á markmiðum Kolbeins að ná persónulegum árangri,“ segir í yfirlýsingunni.

Kolbeinn greiddi tveimur konum miskabætur eftir að hafa ráðist á þær á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur fyrir fjórum árum.

Önnur konan steig fram eftir að Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, greindi frá því að engin kynferðisbrotamál tengd leikmönnum karlalandsliðsins hefðu komið inn á borð sambandsins. Guðni sagði svo af sér, Kolbeinn var tekinn út úr landsliðshópnum og stjórn KSÍ steig sömuleiðis frá borði og boðaði til aukaþings.

Í yfirlýsingu Gautaborgar segir að atburðirnir á Íslandi hefðu verið útkljáðir í lagalegum skilningi fyrir fjórum árum.

Kolbeinn hefur glímt við meiðsli og í yfirlýsingunni kemur fram að félagið ætli að hjálpa honum að ná sér af þeim.

„Endurhæfingin er þegar hafin og hún krefst mikils af Kolbeini. Við stöndum fyrir það sem er í nafninu, félag samherja. Við styðjum Kolbeini og fylgjum honum eftir í endurhæfingunni,“ segir í yfirlýsingu Gautaborgar.

„Á næstu dögum mun Kolbeinn gangast undir aðgerð og hefja líkamlega endurhæfingu samhliða því að vinna í persónulegum árangri sínum.“

Kolbeinn gekk í raðir Gautaborgar í janúar á þessu ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.