Erlent

Kóalabjörnum snarfækkar vegna þurrka, elda og ágangs manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Kóalabirna með húni sínum nærri Canberra. Um þriðjungi færri kóalabirnir eru nú í Ástralíu en fyrir þremur árum.
Kóalabirna með húni sínum nærri Canberra. Um þriðjungi færri kóalabirnir eru nú í Ástralíu en fyrir þremur árum. Vísir/EPA

Um það bil þriðjungsfækkun hefur orðið í kóalabjarnastofninum í Ástralíu undanfarin þrjú ár. Þurrkar, gróðureldar og ágangur manna hefur gengið nærri björnunum sem eru eitt þekktasta tákn landsins.

Kóalabjarnasjóður Ástralíu segir að innan við 58.000 dýr séu nú eftir í landinu en þau voru um 80.000 árið 2018. Björnunum fjölgar hvergi og í sumum héruðum eru aðeins fimm til tíu dýr eftir. Á aðeins einu svæði eru fleiri en 5.000 dýr.

Mesta fækkunin varð í Nýja Suður-Wales, um 41% á þremur árum. Þar geisuðu miklir gróðureldar síðla árs 2019 og fram á síðasta ár. Langvarandi þurrkur undanfarin tíu ár hefur jafnframt þurrkað upp heilu árnar og drepið gúmmítré sem birnirnir lifa á.

Deborah Tabart, stjórnarformaður Kóalabjarnasjóðsins, segir Reuters-fréttastofunni að grípa verði hratt til aðgerða til þess að vernda kóalabirnina. Setja verði ný lög til að vernda birnina frekar.

Fyrir utan tjónið sem þurrkar og eldar hafa valdið kóalastofnunum hafa verktakar rutt mikið af skóglendi sem er helsta búsvæði kóalabjarna.

„Ég held að allir nái því að við verðum að breytast en ef þessar jarðýtur halda áfram óttast ég virkilega um kóalabirnina,“ segir Tabart.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×