Fótbolti

Þurfti að þykjast vera strákur til að fá að spila með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sarina Wiegman er tekin við sem nýr þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.
Sarina Wiegman er tekin við sem nýr þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Getty/Lynne Cameron

Það hefur mikið breyst síðan að nýr landsliðsþjálfari enska kvennalandsliðsins í fótbolta var að stíga sín fyrstu skref.

Sarina Wiegman er fyrir löngu komin í hóp bestu þjálfara heims í kvennafótboltanum en er nýtekin við nýju starfi og saga hennar vekur athygli enskra fjölmiðla.

Wiegman gerði hollenska landsliðið að Evrópumeisturum 2017 og var í framhaldinu kosinn þjálfari ársins hjá FIFA.

Hún hætti með hollenska landsliðið eftir Ólympíuleikanna og er því ekki með liðið á Laugardalsvellinum í kvöld. Þess í stað er hún þessa dagana að stýra enska landsliðinu í fyrsta sinn í undankeppninni.

Þær ensku unnu 8-0 sigur á Norður Makedóníu í fyrsta leik og mæta Lúxemborg í kvöld.

Wiegman er nú 51 árs en það hefur margt breyst varðandi kvennafótboltann síðan hún var að byrja í boltanum.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið sagði hún sögu frá því að hún var að byrja og hvernig aðstæðurnar voru þá fyrir unga knattspyrnukonu.

„Þegar ég byrjaði að spila fótbolta sex ára gömul þá máttu stelpur ekki spila fótbolta en ég svindlaði mér inn,“ sagði Sarina Wiegman. Wiegman var sex ára gömul árið 1975. Hún þóttist vera strákur til að fá að æfa fótbolta eins og bróðir sinn.

„Ég var með mjög stutt hár og leit svolítið út fyrir að vera strákur. Foreldrar mínir leyfðu þetta og ég átti tvíburabróðir. Við byrjuðum því bæði að spila fótbolta og allir sættu sig við það,“ sagði Sarina.

„Þetta var ekki það venjulega en núna er það fullkomlega eðlilegt að spila fótbolta hvort sem þú sért strákur eða stelpa. Það er frábært. Það var fáránlegt hvernig þetta var áður þegar þér var bannað að spila en svona er þróunin víst,“ sagði Sarina.

Sarina Wiegman spilaði á sínum tíma 104 landsleiki fyrir Holland frá 1987 til 2001 og tók síðan við sem landsliðsþjálfari árið 2016. Wiegman varð á sínum tíma bandarískur háskólameistari með North Carolina Tar Heels og vann líka marga titla í Hollandi.

Sarina Wiegman kemur hér skilaboðum til ensku landsliðskonunnar Rachel Daly.Getty/Catherine Ivill
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.