Fótbolti

Mikael skoraði aftur er AGF vann annan leikinn í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael Neville og Jón Dagur Þorsteinsson í leik kvöldsins.
Mikael Neville og Jón Dagur Þorsteinsson í leik kvöldsins. Lars Ronbog/Getty Images

AGF frá Árósum hefur nú unnið tvo leiki í röð í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Annan leikinn í röð skoraði Mikael Neville Anderson.

AGF og Silkeborg mættust í Íslendingaslag í kvöld. Mikael Anderson og Jón Dagur Þorsteinsson spila með AGF á meðan Stefán Teitur Þórðarson spilar með Silkeborg. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Jón Dagur sér í vandræði en slapp með gult spjald þegar klukkutími var liðinn af leiknum. Tíu mínútum síðar kom Yann Aurel Bisseck gestunum frá Árósum yfir og aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Mikael forystuna.

Mikael fagnaði með því að kyssa merkið eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Staðan því 2-0 og reyndust það lokatölur. Mikael var þó ekki hættur en hann nældi sér í gult spjald áður en hann var tekinn af velli á 87. mínútu. Stefán Teitur spilaði allan leikinn í liði Silkeborg.

AGF er nú með níu stig eftir níu umferðir þar sem liðið hefur unnið tvo leiki og gert þrjú jafnefli. Silkeborg er með 11 stig eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×