Erlent

Átta féllu í skotárás í rússneskum háskóla

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Löreglubíll fyrir utan Ríkisháskólann í Perm í morgun. Vopnaður maður gekk berserksgang þar og myrti fjölda fólks.
Löreglubíll fyrir utan Ríkisháskólann í Perm í morgun. Vopnaður maður gekk berserksgang þar og myrti fjölda fólks. AP/Anastasia Jakovleva

Byssumaður skaut átta til bana og særði marga til viðbótar í háskóla í rússnesku borginni Perm í morgun. Að sögn innanríkisráðuneytis landsins er árásarmaðurinn í haldi en talsmaður skólans segir að hann hafi verið felldur.

Reuters-fréttastofan fullyrðir að morðinginn sé nemandi við skólann og hefur eftir talskonu hans að maðurinn hafi sjálfur verið felldur. Á sjónvarpsmyndum frá vettvangi hafi lík hans sést liggja á jörðinni.

AP-fréttaveitan greinir frá því að maðurinn hafi verið vopnaður byssu sem framleidd er fyrir gúmmíkúlur, en slíkum vopnum mun vera auðvelt að breyta þannig að þær skjóti venjulegum byssukúlum.

Námsmenn og kennarar við skólann lokuðu sig inni í stofum sínum þegar skothríðin hófst og var fólk hvatt til að flýja skólalóðina ef það mögulega gat. Sumir stúdentanna munu hafa stokkið út um glugga byggingarinnar til að sleppa undan byssumanninum. 

Óljóst er hve margir eru slasaðir, sumar heimildir tala um sex en aðrar um fjórtán. 

Fjölmiðlar á svæðinu segja að morðinginn sé átján ára gamall háskólanemi sem hafði birt myndir af sér með riffil, hjálm og skotfæri á samfélagsmiðlum fyrir árásina. Hann hafi lýst því hvernig hann hafi lengi dreymt um að fremja ódæði sem þetta. Reikningurinn var síðar fjarlægður.

Perm er í ellefuhundruð kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Moskvu og þar býr um ein milljón manna. Í háskólanum eru um tólf þúsund nemendur. 

Í maí síðastliðnum var svipuð árás gerð í háskólanum í Kazan þar sem sjö námsmenn létu lífið og tveir kennarar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.