Fótbolti

„Fáum meira pláss á Íslandi“

Sindri Sverrisson skrifar
Lieke Martens og Mark Parsons á hliðarlínunni á leik Hollands gegn Tékklandi í Groningen á föstudaginn.
Lieke Martens og Mark Parsons á hliðarlínunni á leik Hollands gegn Tékklandi í Groningen á föstudaginn. Getty/Rico Brouwer

Evrópumeistarar Hollands mættu til Íslands í gærkvöld í sárum eftir að hafa „aðeins“ gert 1-1 jafntefli við Tékkland á heimavelli á föstudaginn. Krafan er skýr hjá þeim um sigur á Laugardalsvelli á morgun.

Um er að ræða fyrsta leik Íslands í undankeppni HM 2023. Holland hóf undankeppnina á leiknum við Tékkland, undir stjórn nýja þjálfarans Mark Parsons.

Holland er í 4. sæti heimslistans, Ísland í 16. sæti og Tékkland í 27. sæti. Parsons vildi þó ekki meina að Holland ætti fyrir höndum enn erfiðari leik á morgun en á föstudaginn:

„Ég held að við munum fá meira pláss á Íslandi en á móti Tékklandi. Tékkarnir voru með mjög varnarsinnað lið og léku mjög taktískan leik. Íslenska liðið er líkamlega sterkt með mikla íþróttamenn, en af því að Ísland vill líka spila fótbolta þá fær maður pláss til að vinna með,“ sagði Parsons við Trouw.

Hollenska liðið lenti í Keflavík í gærkvöld en leikurinn á morgun hefst klukkan 18.45.

Parsons vildi ekki gera of mikið úr svekkjandi úrslitum gegn Tékklandi:

„Mér fannst við hafa fulla og góða stjórn. Við fengum fullt af færum, jafnvel tuttugu. Ég sá fullt af jákvæðum hlutum frá mínu liði og það voru bara úrslitin sem voru neikvæð,“ sagði Parsons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×