Innlent

Boðið upp á Co­vid-at­kvæða­greiðslu í öllum sýslu­manns­um­dæmum

Þorgils Jónsson skrifar
Kjósendur sem verða í sóttkví eða einangrun á kjördag og geta því ekki kosið á almennum kjörstöðum fá að kjósa á sérstökum kjörstöðum í hverju sýslumannsumdæmi. T.d. verður einn slíkur kjörstaður í bílakjallara Krónunnar á Selfossi.
Kjósendur sem verða í sóttkví eða einangrun á kjördag og geta því ekki kosið á almennum kjörstöðum fá að kjósa á sérstökum kjörstöðum í hverju sýslumannsumdæmi. T.d. verður einn slíkur kjörstaður í bílakjallara Krónunnar á Selfossi. Vísir/Arnar

Sýslumenn um allt land mega á mánudag hefja utankjörfundaratkvæðagreiðslu á sérstökum utankjörfundarstöðum fyrir kjósendur sem verða í sóttkví eða einangrun á kjördag og geta því ekki kosið á almennum kjörstöðum.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti segir að sýslumenn í hverju umdæmi skulu auglýsa á vefsíðunni www.syslumenn.is hvar og hvenær atkvæðagreiðsla mun fara fram.

  • Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar gefið út að sérstakur kjörstaður í því umdæmi verði á Skarfabakka í Reykjavík.
  • Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra verður með sérstaka kjörstaði í bílageymslum lögreglustöðvanna á Blönduósi og  Sauðárkróki.
  • Sýslumaðurinn á Suðurlandi verður með sérstaka kjörstaði í bílakjallara í húsnæði Krónunnar á Selfossi og í slökkvistöðinni á Höfn í Hornafirði.
  • Sýslumaðurinn á Suðurnesjum verður með sérstakan kjörstað að Fitjabraut 3 í Reykjanesbæ.

Þau sem greiða atkvæði með þessum hætti skulu koma í bifreið á kjörstaðinn. Þeim er óheimilt að opna dyr eða glugga bifreiðarinnar og skulu vera ein í bifreiðinni. Kjósandi fær ekki kjörgögn í hendur heldur upplýsir hann kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, t.d. með því að sýna blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.

Mikilvægt er að kjósendur hafi með sér blað og ritföng til að gera grein fyrir vilja sínum og hafi með sér skilríki.

Sérstök athygli er vakin á því að þeim sem er í einangrun er heimilt yfirgefa dvalarstað sinn í bifreið í þeim eina tilgangi að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað skv. heimild í reglugerð frá heilbrigðisráðherra.

Kjósanda sem er í einangrun eða sóttkví á kjördag en getur ekki nýtt sér ofangreint úrræði er einnig heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað sínum. Það er þó háð staðfestingu heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun eða sóttkví fram yfir kjördag og upplýsingar um hvers vegna þeim sem er í sóttkví er ekki unnt að greiða atkvæði á sérstökum utankjörfundarstað.

Líkt og með fyrrnefnda útfærslu, fær kjósandi ekki kjörgögn í hendur, heldur upplýsir kjörstjóra um hvernig hann vilji greiða atkvæði, t.d. með því að sýna blað með listabókstaf framboðs.

Frekari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu má finna á vefslóðinni island.is/covidkosning2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×