Fótbolti

Rangers bannaði Celtic-hetjum að mæta á leik liðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Sutton og Neil Lennon voru samherjar hjá Celtic.
Chris Sutton og Neil Lennon voru samherjar hjá Celtic. getty/Matthew Ashton

Gömlu Celtic-hetjurnar Neil Lennon og Chris Sutton fengu ekki að mæta á Ibrox, heimavöll erkifjendanna í Rangers, í gær.

Lennon og Sutton áttu að fjalla um leik Rangers og Lyon í Evrópudeildinni fyrir BT Sport. Þeim var hins vegar meinað að mæta á Ibrox og þurftu því að fjalla um leikinn frá myndveri BT Sport í London.

Rangers sagði að Lennon og Sutton mættu ekki mæta á Ibrox vegna hertra öryggisreglna. Ally McCoist og David Weir mættu hins vegar á Ibrox fyrir BT Sport en þeir eru báðir fyrrverandi leikmenn Rangers. McCoist þjálfaði einnig liðið um tíma.

Sutton lýsti yfir óánægju sinni með ákvörðun Rangers á Twitter í gær. Hann varð fjórum sinnum skoskur meistari með Celtic.

Lennon var rekinn sem knattspyrnustjóri Celtic í febrúar á þessu ári. Hann tók aftur við liðinu 2019 eftir að hafa stýrt því á árunum 2010-14. Lennon hefur alls tíu sinnum orðið Skotlandsmeistari með Celtic, fimm sinnum sem stjóri og fimm sinnum sem leikmaður, og átta sinnum bikarmeistari.

Lyon vann leikinn gegn Rangers í gær með tveimur mörkum gegn engu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.