Fótbolti

Gunnhildur Yrsa: Alltaf gaman að mæta þeim bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, kvartar ekkert yfir því að þurfa að spila fyrsta leikinn í undankeppni HM á móti einu allra besta liði heims.

Íslenska landsliðið hefur undankeppnina á þriðjudaginn kemur þegar Evrópumeistarar Hollands koma í heimsókn á Laugardalsvöllinn.

„Það skiptir voðalega litlu fyrir okkur að mæta þeim fyrst. Við mætum tilbúnar í þennan leik,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á fjarfundi með blaðamönnum.

„Við erum vel undirbúnar enda höfum við verið að undirbúa okkur síðan að Steini tók við,“ sagði Gunnhildur. Þetta verður fimmti leikur liðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar en sá fyrsti í keppni því hinir hafa allir verið vináttulandsleikir.

„Það er alltaf gaman að mæta þeim bestu því þá veit maður hvar maður stendur. Það er samt ákveðin áskorun að mæta svo sterku liði,“ sagði Gunnhildur.

„Þetta er mjög sterk þjóð. Við verðum að vera einbeittar og þéttar. Við verðum örugglega meira í vörn en í síðustu leikjum. Við höfum bara gaman af því,“ sagði Gunnhildur en hvað með möguleikana.

„Við þurfum bara að einbeita okkur að okkur sjálfum og við vitum að með okkar besta leik þá getur allt gerst,“ sagði Gunnhildur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.