Fótbolti

Liverpool þarf ekki að hafa áhyggjur af Zlatan á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic flaug ekki með AC Milan liðinu til Englands heldur einbeitir hann sér að því að ná sér góðum eftir að hafa fundið fyrir sársauka á æfingu í morgun.
Zlatan Ibrahimovic flaug ekki með AC Milan liðinu til Englands heldur einbeitir hann sér að því að ná sér góðum eftir að hafa fundið fyrir sársauka á æfingu í morgun. Getty/Emmanuele Ciancaglin

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic verður ekki með AC Milan á Anfield annað kvöld þegar liðið mætir Liverpool í Meistaradeildinni.

Zlatan spilaði með AC Milan um helgina og skoraði þá á móti Lazio. Forráðamenn AC Milan ákváðu hins vegar að skilja hann eftir heima á Ítalíu.

AC Milan vildi ekki taka neina áhættu með Zlatan sem er að ná sér af hásinarmeiðslum.

„Ibrahimovic hefði verið í byrjunarliðinu,“ sagði Stefano Pioli, þjálfari AC Milan, á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Hásin getur alltaf bólgnað upp eftir fjögurra mánaða fjarveru. Hann var í góðu lagi en var aumur eftir leikinn á sunnudaginn. Hann reyndi að æfa í morgun en fann fyrir sársauka og það er engin ástæða til að taka áhættu á þessum tímapunkti á leiktíðinni,“ sagði Pioli.

„Leikurinn annað kvöld er mjög mikilvægur en við eigum líka fullt af slíkum leikjum eftir,“ sagði Pioli.

Piolo sagði ekki hafa áhyggjur af framlínunni enda getur hann treyst á þá Ante Rebic og Olivier Giroud í leiknum á Anfield.

Zlatan Ibrahimovic hefur unnið marga titla á sínum sigursæla ferli en hann á eftir að vinna Meistaradeildina. Hann hefur skorað 48 mörk í 120 leikjum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×