Greint var frá því á Vísi í morgun að nokkur órói hafi mælst við eldstöðina í Geldingadölum snemma í morgun. Rétt fyrir hádegi varð flugmaður, sem átti leið yfir eldgosið, var við það að glóandi kviku mætti sjá í gosgígnum og lítinn taum kviku renna niður eftir honum.
Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði, telur ólíklegt að eldgosið sé í andaslitrunum. Líklegra sé að það sé að lifna aftur við.
„Mér finnst það nú ekki, mér finnst frekar að það sé að lifna við aftur. Það er búinn að vera smá órói á þessu tímabili sem yfirborðsvirknin lá niðri og við sáum reyndar glóandi hraun líka í hraunpípu þarna þannig að eitthvað hefur verið að flæða undir hraunyfirborðinu,“ segir Þorvaldur.
Það sé merki um að kvikan sé að komast aftur upp á yfirborðið eftir að eitthvað hamlaði henni leið.
„Mér finnst þetta frekar merki um það kannski að það sé að hreinsa gosrásina frekar og við megum kannski vænta þess að það komist í sama gírinn,“ segir Þorvaldur.

„Á meðan kvikan er enn að koma upp er gosið enn í gangi og það er mjög erfitt að segja til um á hvorn veginn það fer. Það er augljóst að kvikan hefur átt í einhverjum erfiðleikum með að komast upp í gíginn á undanförnum dögum, hver svo sem ástæðan er, hvað svo sem lokaði fyrir eða hálflokaði fyrir og það var náttúrulega komin kvika í gíginn í morgun.“
Kvikan sé að finna sér aftur leið upp á yfirborðið en tíma geti tekið fyrir gosið að koma sér aftur í gang.
„Hún er þá greinilega að finna sér aftur leið upp á yfirborðið. En það getur tekið tíma fyrir gosið að komast aftur í gang ef það er þannig. En svo getur það farið þannig að það sem hefur verið að tefja kvikuna við að komast upp, það getur náttúrulega náð yfirráðum aftur og þá fer þetta í hina áttina. “