Innlent

Hólmurum fjölgar hratt: „Það er bara geggjuð stemmning hérna í bænum”

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kristjón Daðason er ánægður með lífið í Stykkishólmi.
Kristjón Daðason er ánægður með lífið í Stykkishólmi. Vísir.

Íbúum í Stykkishólmi hefur fjölgað um ríflega hundrað á síðustu fjórum árum, og munar þar mest um barnafjölskyldur. Aðfluttur fjölskyldufaðir í bænum segist njóta lífsins mun betur í kyrrðinni.

Íbúar eru nú 1.208 talsins en voru 1.109 árið 2016 og 1.091 árið 2014. Ungt fólk er þar í miklum mæli og ráðast þurfti í umfangsmiklar framkvæmdir á leikskólanum til þess að mæta auknum nemendafjölda. Berglind Axelsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Stykkishólmi, segist líka eiga von á frekari fjölgun þar.

„Við munum finna fyrir því á næstu árum vegna þess að leikskólinn er alveg sprunginn og það er verið að byggja við hann,” segir Berglind. „Ég myndi segja að við þurfum stærri skóla innan einhvers tíma.”

Kyrrðin og áhyggjuleysið er aðdráttarafl

Kristjón Daðason er einn þeirra sem nýverið settist að í Stykkishólmi, en það var kyrrðin og áhyggjuleysið sem dró hann þangað.

„Ég var búin að vinna í átta ár í Reykjavík og Mosfellsbæ eftir að ég lauk námi í Danmörku og mikil vinna til að hafa í sig og á í Reykjavík og ég var að vinna 160 prósent vinnu, að minnsta kosti, þau ár sem ég var þarna og langaði aðeins að eiga rólegra líf,“ segir Kristjón.

Hann viðurkennir að hafa þurft að sannfæra fjölskylduna til að flytja út á land.

„Það er erfiðast að sannfæra konuna en eftir eitt sumarið vorum við hér með litla strákinn okkar. Hann fékk bara að leika sér. Eftir þá viku var hún bara til í að flytja,“ segir Kristjón.

Og þau sjá ekkert eftir því.

„Það er bara geggjuð stemmning hérna í bænum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.