Innlent

Nýtt tilfelli riðu í Skagafirði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Skagafirði
Frá Skagafirði Vísir/Vilhelm

Riðuveiki hefur verið staðfest á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Um 1.500 fjár eru á bænum, fullorðið fé og lömb. Tæpt ár er síðan riða greindist á fimm bæjum í Skagafirði, sem þó tilheyra öðru varnarhólfi en bærinn þar sem riðan hefur komið upp nú.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Matvælastofnunar. Syðra-Skörðugil er í Húna- og Skagahólfi en í því hólfi greindist síðast riða á einum bæ árið 2020. Riðuveiki hefur komið upp á Syðra-Skörðugili einu sinni áður, fyrir 30 árum eða árið 1991.

Á síðasta ári greindist riða á fimm bæjum í austanverðum Skagafirði, sem tilheyra Tröllaskagahólfi. Sömuleiðis á einum bæ á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu.

Á vef Matvælastofnunar segir að nú sé unnið að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga til að meta umfang smitsins og nauðsynlegar aðgerðir.

Þar segir einnig að aukin sýnataka sé fyrirhuguð á Norðurlandi vestra nú í haust og mjög mikilvægt sé að bændur láti héraðsdýralækni vita af fé sem drepst eða sé lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma svo hægt sé að nálgast sýni úr þeim. Einnig sé mikilvægt að fá sýni úr heimaslátrun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×