Innlent

Allir framboðslistar endanlega staðfestir á morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Það kemur í ljós á kjördag hinn 25. september hvort framboð flokka er meira en eftirspurn kjósenda en allt að ellefu flokkar og framboð gætu náð fulltrúum á þing í komandi kosningum.
Það kemur í ljós á kjördag hinn 25. september hvort framboð flokka er meira en eftirspurn kjósenda en allt að ellefu flokkar og framboð gætu náð fulltrúum á þing í komandi kosningum. Stöð 2/Egill

Tíu flokkar bjóða fram í öllum kjördæmum fyrir komandi kosningar og Ábyrg framtíð býður að auki fram í tveimur kjördæmum. Frestur til að skila inn framboðslistum rann út á hádegi í dag.

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa átta flokkar átt fulltrúa á Alþingi. Eftir kosningarnar hinn 25. september næst komandi gæti svo farið að ellefu flokkar og framboð ættu fulltrúa á þingi.

Þegar framboðsfrestur rann út á hádegi höfðu Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn, Píratar, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins skilað inn framboðum í öllum sex kjördæmum landsins en þessir flokkar eiga allir fulltrúa á Alþingi í dag.

Að auki skiluðu Sósíalistaflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn inn framboðum í öllum kjördæmum og Ábyrg framtíð skilaði inn framboðslista í Suðurlandskjördæmi og Heimir Herbertsson formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík suður segir að það hafi Ábyrg framtíð einnig gert í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Flokkarnir ellefu sem skilað hafa inn framboðlistum.Vísir/Helgi

„Þessum tilkynningum fylgja síðan gögn sem yfirkjörstjórnir þurfa að fara yfir og meta. Það munu þær gera í dag og á morgun. Síðan verður úrskurðað um þau framboð sem komið hafa fram og sá úrskurður mun liggja fyrir á morgun.“

Frá öllum yfirkjörstjórnum?

„Í síðasta lagi á morgun frá öllum yfirkjörstjórnum. Gæti jafnvel legið fyrir fyrr einhvers staðar,“ segir Heimir.

Landskjörstjórn tekur við tilkynningum frá öllum kjördæmum, staðfestir framboðslistana endanlega á þriðjudag og auglýsir í framhaldinu hvaða flokkar og framboð bjóða fram.

Heimir Herbertsson formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður lofar að fyrstu tölur verði birtar fljótlega eftir að kjörstöðum lokar klukkan 22:00 á kjördag.Stöð 2/Arnar

Talningarfólk yfirkjörstjórnanna í Reykjavík mun telja atkvæði í sitt hvoru lagi eins og áður. Bæði teymin verða hins vegar í fyrsta skipti undir sama þaki í Laugardalshöll í þetta skiptið.

Hvenær ætlar þú svo að koma með fyrstu tölur?

„Við áformum að gera það mjög fljótlega eftir að kjörstöðum lokar. En ég get ekki lofað þér nákvæmlega upp á mínútu hvenær það verður. Sem fyrst eftir að kjörstöðum lokar,“ segir Heimir Herbertsson.


Tengdar fréttir

Eyðsla í próf­kjörum farin að færast nær því sem tíðkaðist fyrir Hrun

Bæði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vörðu mörgum milljónum krónum meira í kosningabaráttu sinni fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í ár en fyrir kosningarnar árið 2016. Stjórnmálafræðingur segir þetta ekki nýtt hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni en styrkveitingar hvergi nærri því sem tíðkaðist fyrir hrun. 

Tíu flokkar skiluðu listum í öllum sex kjördæmum

Tíu flokkar ætla að bjóða fram í öllum sex kjördæmum landsins. Framboðsfrestur rann út í hádeginu í dag. Ábyrg framtíð skilaði inn framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og eru því ellefu flokkar sem bjóða fram í höfuðborginni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.