Innlent

Himin­lifandi með boðaða breytingu Svan­dísar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er formaður Samtakanna '78.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir er formaður Samtakanna '78. Vísir/baldur hrafnkell

Formaður Samtakanna 78 fagnar boðuðum breytingum á lögum um blóðgjafir, sem heimila karlmönnum sem stundað hafa kynlíf með öðrum karlmönnum að gefa blóð. Breytingin gangi nógu langt að mati samtakanna, sem telja núverandi lög úrelt og ómannúðleg.

Bann við blóðgjöf karla sem stundað hafa kynlíf með öðrum karlmönnum mun heyra sögunni til, nái reglugerðarbreyting Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fram að ganga. Með henni verður óheimilt að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem kyns, kynhneigðar, uppruna eða stöðu að öðru leyti. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður Samtakanna 78 bendir á að samtökin hafi lengi barist gegn því að núverandi reglum verði breytt.

„Þetta er svo ótrúlega úrelt, það er ekki neitt tekið tillit til sambandsstöðu þannig að fólk getur verið saman í 20 ár og bara stundað kynlíf innan sambands en mátt samt ekki gefa blóð,“ segir Þorbjörg.

Vongóð um að málið nái alla leið

Ísland er eitt fárra Evrópulanda þar sem slíkt bann er við lýði. Þorbjörg segir að með breytingunni skipi Ísland sér í fremstu röð.

„Sambærilegar breytingar voru gerðar í Bretlandi á dögunum til dæmis, í öðrum löndum hefur verið settur ákveðinn skírlífistími sem er auðvitað mjög niðurlægjandi.“

Breytingin gangi nógu langt að mati samtakanna. Með henni gangi eitt yfir alla.

„Þetta eru mjög góðar fréttir og við erum vongóð um að þetta nái alla leið i gegn og við hvetjum fólk til að senda inn jákvæðar umsagnir um þessa breytingu,“ segir Þorbjörg.

Hommar hafa lengi barist fyrir því að fá að gefa blóð. Var gert grín að stöðunni í Áramótaskaupinu fyrir tveimur árum þar sem þjóðþekktir hommar tóku lagið. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.