Fótbolti

Sonur Hannesar fékk hanskana hans Neu­ers og dóttirin treyjuna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neuer var alveg tilbúinn að gefa ungum aðdáanda hanskana þrátt fyrir að hafa haldið hreinu.
Neuer var alveg tilbúinn að gefa ungum aðdáanda hanskana þrátt fyrir að hafa haldið hreinu. Baldur Kristjánsson

Hannes Þór Halldórsson spjallaði við Manuel Neuer, markvörð Þýskalands, að 4-0 sigri Þjóðverja á Laugardalsvelli á dögunum. Börn Hannesar voru með í för og voru vægast sagt orðlaus yfir því að pabbi þeirra væri að spjalla við einn besta markvörð heima.

Hannes Þór var að leika sinn síðasta leik fyrir íslenska landsliðið og hefur Neuer eflaust viljað hrósa honum fyrir frábæran feril. Hinn 35 ára gamli Neuer hefur átt ágætis feril sjálfur og varð til að mynda heimsmeistari með Þýskalandi sumarið 2014. Alls hefur hann leikið 106 landsleiki fyrir þjóð sína.

Markverðirnir tveir ræddu saman á ganginum þar sem búningsklefar liðanna eru á Laugardalsvelli. Með í för voru sonur og dóttir Hannesar Þórs.

„Spjallaði við Manuel Neuer eftir minn síðasta leik fyrir Ísland. Gerði hann tvo orðlausa aðdáendur mjög glaða. Takk fyrir kærlega,“ segir Hannes Þór á Twitter-síðu sinni. 

Ljóst er að sonur Hannesar fékk hanska þýska markvarðarins að gjöf og þá virðist sem dóttir hans hafi fengi treyjuna hans Neuer.

Baldur Kristjánsson, ljósmyndari og góðvinur Hannesar, náði myndum af atvikinu og birti sjálfur fjórar myndir til viðbótar á Twitter-síðu sinni.

„Óvæntasta en skemmtilegasta myndataka ársins,“ sagði Baldur um myndir. Þar má sjá Hans Dieter-Flick, þjálfara þýska liðsins, þakka Hannesi fyrir vel unnin störf.

Ekki amalegur endir á annars frábærum landsliðsferli hjá þessum magnaða markverði.


Tengdar fréttir

Hannes Þór hættur í landsliðinu

Hannes Þór Halldórsson spilaði í kvöld sinn síðasta landsleik á ferlinum. Hann tilkynnti það í sjónvarpsviðtali eftir leik.

Finnst í rauninni eins og það séu engin box eftir að tikk­a í

„Hún er bara mjög góð. Auðvitað er ljúfsárt að kveðja landsliðið en ég er alveg sannfærður um að þetta hafi verið rétti tímapunkturinn,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrum landsliðsmarkvörður Íslands, um ákvörðun sína að gefa ekki lengur kost á sér í íslenska landsliðið í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×