Fótbolti

Þrenna Lacasse skaut Benfica áfram en Þórdís úr leik | Öll úrslit kvöldsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Cloé Lacasse skoraði þrennu fyrir Benfica er liðið fór í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Cloé Lacasse skoraði þrennu fyrir Benfica er liðið fór í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Mynd/Instagram/cloe_lacasse

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og stöllur hennar í Apollon Limassol frá Kýpur féllu úr keppni í Meistaradeild Evrópu eftir 3-1 tap fyrir Kharkiv frá Úkraínu í kvöld. Ljóst er hvaða lið fara í riðlakeppnina.

Apollon hafði tapað fyrri leiknum 2-1 á heimavelli og þurftu því sigur er þær sóttu úkraínska liðið heim. Þórdís Hrönn var í byrjunarliði Apollon sem var lent 2-0 undir eftir aðeins 20 mínútna leik.

Kharkiv komst í 3-0 á 62. mínútu áður en sjálfsmark liðsins veitti Apollon veika von á 66. mínútu. Þórdísi var skipt af velli skömmu eftir sjálfsmarkið í stöðunni 3-1 en mörkin urðu ekki fleiri.

Kharkiv vann 3-1, einvígið samanlagt 5-2 og er því komið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Þórdís Hrönn með boltann í leik með KR sumarið 2020.Vísir/Hulda Margrét

Cloé Lacasse, fyrrum framherji ÍBV, skoraði þrennu fyrir Benfica frá Portúgal sem vann öruggan 4-0 heimasigur á Twente frá Hollandi í Lissabon í kvöld. Benfica vann einvígið 5-1 og er því komið áfram.

Hollenska markamaskínan Vivianne Miedema skoraði þá þrennu fyrir Arsenal sem vann 4-0 útisigur á Slavia Prag til að tryggja sæti sitt í riðlakeppninni eftir 7-0 samanlagðan sigur í einvígi liðanna.

Juventus verður einnig þar eftir 1-0 sigur á Vllaznia frá Albaníu í Tórínó. Hin tékkneska Andrea Stasstova skoraði eina mark leiksins en Juventus vann 2-0 samanlagt.

Þá vann Breiðablik 3-0 heimsigur á Króatíumeisturum Osijek til að tryggja sitt sæti í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×