Innlent

Fyrr­verandi starfs­maður for­seta­em­bættisins kærir sam­starfs­mann fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maðurinn starfaði og bjó á Bessastöðum.
Maðurinn starfaði og bjó á Bessastöðum.

„Þessi mál hafa tekið gríðarlegan toll,“ segir fyrrverandi starfsmaður forsetaembættisins sem bjó á Bessastöðum en hefur nú kært kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns til lögreglu.

Frá þessu greinir Fréttablaðið en maðurinn óskar nafnleyndar.

Maðurinn segir að framkoma gerandans hafi valdið sér og fjölskyldu sinni sársauka og fjárhagstjóni en hann sá sér ekki annað fært en að segja upp störfum og flytja burt vegna áreitninar, sem er sögð hafa staðið yfir í mörg ár.

Hún hafi náð hámarki í starfsmannaferð til Parísar árið 2018, þar sem gerandinn hafi þuklað á manninum og brotið á fleirum. Fékk hann skriflega áminningu frá forsetaembættinu, baðst afsökunar og var sendur í tímabundið leyfi, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Það kom þolandanum í opna skjöldu þegar gerandinn fékk að snúa aftur til starfa eftir leyfið.

Þolandinn segist ekki hafa fengið viðeigandi málsmeðferð og kvartar yfir afgreiðslu fyrrverandi forsetaritara. Sif Gunnarsdóttir, núverandi forsetaritari, vísar hins vegar í yfirlýsingu Guðna Th. Jóhannessonar frá því í október 2019, þar sem segir að málinu hafi verið lokið með samþykki allra sem það varðaði.

Nánar má lesa um málið í Fréttablaðinu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×