Fótbolti

Rétti tíminn til að velja Sif en ekki Diljá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sif Atladóttir hefur leikið 82 landsleiki og farið með landsliðinu á þrjú stórmót.
Sif Atladóttir hefur leikið 82 landsleiki og farið með landsliðinu á þrjú stórmót. vísir/bára

Þorsteinn Halldórsson segir að núna hafi verið rétti tíminn til að velja Sif Atladóttur aftur í íslenska landsliðið.

Sif, sem er 36 ára, er í landsliðshópnum sem mætir Evrópumeisturum Hollands í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli 21. september.

Sif hefur ekki verið í landsliðinu í um tvö ár en síðasti landsleikur hennar var gegn Lettlandi í október 2019. Hún eignaðist sitt annað barn í september í fyrra og sneri aftur í lið Kristianstad í vor. Sif hefur verið í byrjunarliðinu hjá Kristianstad að undanförnu og er nú komin aftur í landsliðið.

„Hún er á góðum stað og er að vinna sig hægt og rólega í sitt besta form. Það er gott að taka hana inn á þessum tíma og sjá sjálfur hversu góð hún er,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi KSÍ í dag þar sem landsliðshópurinn var kynntur.

Diljá Ýr Zomers hefur leikið vel með Häcken í sumar og Þorsteinn segir að hún hafi komið til greina í landsliðið. Hann ákvað þó á endanum að velja hana ekki.

„Hún var inni í myndinni og ég spáði mikið í henni. En ég taldi þetta ekki rétta tímann,“ sagði Þorsteinn.

Elísa Viðarsdóttir er eini eiginlegi hægri bakvörðurinn í íslenska hópnum. Aðspurður hvort einhverjir aðrir í hópnum gætu leyst þá stöðu nefndi Þorsteinn Guðnýju Árnadóttur, leikmann AC Milan, sem kemur aftur inn í landsliðið eftir að hafa misst af vináttulandsleikjunum gegn Írlandi í byrjun sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×