Erlent

Vilja koma böndum á notkun ormalyfs gegn Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna segir að í ágúst hafi um 88 þúsund lyfseðlar verið veittir fyrir ivermectin á viku. Það sé tuttugu og fjórum sinnum fleiri lyfseðlar en eðlilegt teljist.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna segir að í ágúst hafi um 88 þúsund lyfseðlar verið veittir fyrir ivermectin á viku. Það sé tuttugu og fjórum sinnum fleiri lyfseðlar en eðlilegt teljist. Getty/Soumyabrata Roy

Heilbrigðissérfræðingar og hópar heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum verja þessa dagana miklu púðri í að reyna að koma í veg fyrir notkun gamals ormalyfs gegn Covid-19. Varað er við því að notkun lyfsins geti valdið skaðlegum hliðarverkunum og lítið sé um sönnunargögn um að lyfið hjálpi raunverulega gegn veirunni.

Embættismenn í bandaríkjunum hafa orðið varir við mikla aukningu í notkun lyfsins Ivermectin í sumar. Þar er um að ræða ódýrt lyf sem hefur verið til í áratugi og er notað gegn hringormum og öðrum sníkjudýrum í húsdýrum og jafnvel mönnum.

Samhliða mikilli notkun hefur tilkynningum um að fólk hafi tekið of stóra skammta af lyfinu fjölgað einnig. Þá hafa borist fregnir af því að fólk hafi verið að kaupa sérstaka útgáfu lyfsins sem ætluð er gæludýrum í massavís í gæludýrabúðum.

Sjá einnig: Vara við inn­töku húð­krems gegn Co­vid-19

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna segir að í ágúst hafi um 88 þúsund lyfseðlar verið veittir fyrir ivermectin á viku. Það sé tuttugu og fjórum sinnum fleiri lyfseðlar en eðlilegt teljist.

Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur varað sérstaklega við notkun Ivermectin gegn Covid-19.

Áhrifamiklir íhaldsmenn vestanhafs hafa ýtt undir notkun lyfsins. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa meðal annars hvatt fólk til að nota lyfið gegn kórónuveirunni. Bæði til að koma í veg fyrir smit og til að draga úr einkennum þeirra sem hafa smitast. Þessar ráðleggingar hafa verið í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum og náð til milljóna Bandaríkjamanna sem vilja ekki láta bólusetja sig.

Sjá einnig: Innflutningur á ivermectin tífaldast í Ástralíu og fleiri neita að svara um notkun þess

Stærstu samtök heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna og lyfjafræðinga vöruðu við því að fólk fengi lyfseðla fyrir lyfinu. Alfarið óljóst væri hvort þau gerðu yfir höfuð gagn gegn kórónuveirunni.

Hingað til hafa niðurstöður nokkurra rannsókna gefið í skyn að lyfið hjálpi gegn Covid-19. AP fréttaveitan segir þær þó takmarkaðar og útlit fyrir að gífurlega mikið magn af lyfinu þurfi svo það hjálpi. Mun meira en hollt teljist fyrir menn.

Nokkrar umfangsmiklar rannsóknir eru yfirstandandi sem eiga að varpa betra ljósi á virkni ormalyfsins gegn Covid-19 á næstunni.

Delta-afbrigði kórónuveirunnar herjar hún af miklum krafti á Bandaríkin og þá helst á óbólusetta. Í byrjun júlí voru rúmlega tvö hundruð Bandaríkjamenn að deyja á degi hverjum vegna Covid-19. Sú tala er nú komin í um 1.500.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×