Innlent

Var mættur heim til fyrrverandi og réðst þar á nágrannakonu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Óvenjumörg líkamsárásarmál gegn konum komu á borð lögreglu í nótt, að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns.
Óvenjumörg líkamsárásarmál gegn konum komu á borð lögreglu í nótt, að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns. Vísir/vilhelm

Karlmaður sem réðst á konu í fjölbýlishúsi í Laugardal skömmu eftir miðnætti í nótt er einnig grunaður um heimilisofbeldi. Hann var mættur á staðinn til að vitja fyrrverandi unnustu sinnar og lét ófriðlega, að sögn lögreglu.

Tilkynnt var um fjórar líkamsárásir á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þar af þrjár gegn konum, að því er segir í dagbók lögreglu. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að þetta séu við fyrstu sýn óvenjumörg líkamsárásarmál gegn konum.

Fram kemur í dagbók lögreglu að í einu málanna hafi karlmaður ráðist á konu á stigagangi við heimili hennar í Laugardalnum. Hann hafi hrint henni og skallað hana í andlitið svo gleraugu hennar brotnuðu og hún hlaut áverka. Maðurinn hafi svo farið inn í aðra íbúð á stigaganginum.

Jóhann Karl segir að maðurinn hafi þarna verið mættur til að „angra“ fyrrverandi unnustu sína, sem búi í stigaganginum. Hann hafi barið þar allt að utan og konan sem hann svo réðst á hefði farið fram til að athuga af hverju lætin stöfuðu. „Hann hjólar í hana, fer svo inn til fyrrverandi og er farinn þegar lögregla kemur,“ segir Jóhann Karl.

Þá segir hann lögreglu vita hver maðurinn sé. Auk líkamsárásarinnar gegn nágrannakonunni sé hann einnig grunaður um heimilisofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.