Lingard með tvö í sigri Englands á Andorra

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lingard nýtti tækifærið í byrjunarliði Englands og skoraði tvö.
Lingard nýtti tækifærið í byrjunarliði Englands og skoraði tvö. Shaun Botterill/Getty Images

England vann 4-0 sigur á Andorra er liðin mættust á Wembley í Lundúnum í I-riðli undankeppni HM karla í fótbolta á næsta ári. Hálfgert B-lið Englendinga mætti til leiks sem átti í vandræðum framan af leik.

Fastlega var búist við sigri Englendinga í dag enda leikir stærri þjóða gegn Andorra jafnan formsatriði. Gareth Southgate, þjálfari þeirra ensku, gaf mörgum leikmönnum sem minna hafa spilað undir hans stjórn tækifæri í dag.

Patrick Bamford, framherji Leeds United, spilaði sinn fyrsta landsleik og hinn 18 ára gamli Jude Bellingham byrjaði, líkt og Jesse Lingard og markvörðurinn Sam Johnstone. Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Liverpool, lék á miðjunni og þeir Conor Coady og Tyrone Mings voru í miðverði.

England stýrði ferðinni í leiknum frá A til Ö og kom Jesse Lingard liðinu yfir á 18. mínútu þegar boltinn barst til hans af varnarmanni Andorra innan teigs og hann skaut boltanum með vinstri fæti í hægra horn frá vítapunkti.

Erfiðlega gekk hins vegar fyrir þá ensku að brjóta varnarmúr Andorra frekar á bak aftur. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Harry Kane kom inn á fyrir Bamford þegar rúmur klukkutími var liðinn og hann tvöfaldaði forskot þeirra ensku af vítapunktinum á 72. mínútu. Sex mínútum síðar skoraði Lingard annað mark sitt er hann kom Englandi 3-0 yfir eftir stoðsendingu Bukayo Saka.

Lingard launaði honum greiðann með því að leggja upp mark fyrir Saka á 85. mínútu sem innsiglaði 4-0 sigur ensks liðs sem átti í miklum vandræðum framan af leik.

England er með fullt hús stiga á toppi riðilsins, 15 stig eftir fimm leiki. Albanía er með níu stig í öðru sæti eftir 1-0 sigur á Ungverjalandi í dag en Ungverjar eru með sjö stig, líkt og Pólland, sem mætir San Marínó í kvöld.

Andorra er með þrjú stig í fimmta sæti en San Marínó án stiga á botninum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.