Erlent

Herða tökin á sjónvarpsstöðvum og banna „kvenlega“ leikara

Samúel Karl Ólason skrifar
Nýjum reglum um sjónvarpsframleiðslu í Kína er meðal annars ætlað að auka karlmennsku kínverskra karlmanna.
Nýjum reglum um sjónvarpsframleiðslu í Kína er meðal annars ætlað að auka karlmennsku kínverskra karlmanna. AP/Ng Han Guan

Yfirvöld í Kína hafa skipað sjónvarpsstöðvum þar í landi að ráða ekki listamenn sem þykja of kvenlegir og hafi rangar pólitískar skoðanir. Þau beri forsvarsmönnum sjónvarpsstöðvanna að byggja upp andrúmsloft sem ýti undir ættjarðarást.

Forsvarsmenn Kommúnistaflokks Kína vilja koma böndum á skemmtanageirann í Kína, sem þeir segja vera að leiða ungt fólk af réttri leið.

Í frétt Reuters um þessar skipanir segir að skemmtanageirinn í Kína hafi vaxið hratt á undanförnum árum. Ráðamenn hafi unnið að því að koma á hann böndum. Kommúnistaflokkur Kína getur ritskoðað allt sem talið er fara gegn grunngildum gilda flokksins og þegar eru miklar reglur í Kína varðandi framleiðslu sjónvarpsefnis, tölvuleikja og tónlistar.

Um síðustu helgi var tilkynnt að börn í Kína mættu ekki spila tölvuleiki í meira en þrjá tíma á viku, samhliða því að aukið eftirlit með leikjafyrirtækjum var tilkynnt.

Miklu púðri hefur verið varið í að koma böndum á stór tæknifyrirtæki Kína að undanförnu.

Sjá einnig: Börnum bannað að spila meira en þrjá tíma í viku í Kína

Í nýju reglunum segir að sjónvarpsstöðvar eigi að velja leikara og gesti sjónvarpsþátta með tilliti til pólitískrar virkni þeirra og siðferðis þeirra. Þá eigi að hætta að sýna þætti sem sýni of kvenlega hegðun eða séu brenglaðir á einhvern hátt. Það sama eigi við þætti sem byggi á hneykslismálum og groddalegum áhrifavöldum.

Í frétt Guardian segir að reglurnar eigi að leiðrétta meint vandamál varðandi brot listamanna á reglum og siðferðis, og þeirri óreiðu sem ríki varðandi dýrkun á frægu fólki. Þess í stað eigi að byggja upp andrúmsloft ástar í garð Kommúnistaflokksins og Kína og virðingu fyrir siðferði og list.

Reglurnar voru opinberaðar af hinu opinbera í Kína í dag. Í annarri tilkynningu frá menningarráðuneyti Kína segir að frægt fólk eins og áhrifavalda eigi reglulega að fara í siðferðisþjálfun og umboðsskrifstofur eigi að reka áhrifavalda sem sýni ekki nægilega góða siðferðiskennd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×