Innlent

Fyrsta Skaftárhlaup sem nýja brúin yfir Eldvatn fær á sig

Kristján Már Unnarsson skrifar
Brýrnar yfir Eldvatn hjá Ásum í Skaftártungu í gærkvöldi. Nýja brúin til vinstri, sú gamla til hægri.
Brýrnar yfir Eldvatn hjá Ásum í Skaftártungu í gærkvöldi. Nýja brúin til vinstri, sú gamla til hægri. Egill Aðalsteinsson

Hlaupið sem hófst í Skaftá í gær er það fyrsta sem dynur á nýju brúnni yfir Eldvatn hjá Ásum, eftir að hún var opnuð umferð fyrir tæpum tveimur árum. Hún var reist í stað gömlu brúarinnar sem eyðilagðist í Skaftárhlaupi haustið 2015. Hlaupið núna er þó vart talið verða nema um fjórðungur af stærð hamfarahlaupsins fyrir sex árum.

Í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 af vettvangi var aðstæðum lýst og báðar brýrnar sýndar. Gamla brúin stendur enn uppi en var úrskurðuð ónýt eftir að hlaupið gróf undan brúarstöplinum á eystri árbakkanum.

Gamla brúin yfir Eldvatn í gærkvöldi. Sjá má hvernig eystri brúarstöpullinn stendur í lausu lofti eftir hamfarahlaupið haustið 2015. Nýja brúin til hægri. Fjær sést í hringveginn um Eldhraun.Egill Aðalsteinsson

Hlaupið 2015 er það stærsta sem vitað er um í Skaftá frá því að sögur hófust. Stærð þess er metin yfir 3.000 rúmmetrar á sekúndu. Það samsvarar sjö- til tíföldu rennsli Ölfusár, vatnsmesta fljóts Íslands. Skaftárhlaup árið 2018 var einnig mjög stórt en það mældist um 2.000 rúmmetrar á sekúndu.

Hlaupið sem hófst í gærmorgun er talið koma úr vestari sigkatli Skaftárjökuls. Það hafði í gærkvöldi náð 400 rúmmetrum á sekúndu í Skaftá við Sveinstind en vísindamenn Veðurstofu Íslands áætla að það verði að hámarki um 750 rúmmetrar á sekúndu, eða sem svarar tvöföldu rennsli Ölfusár.

Skaftá við Skaftárdal í gærkvöldi. Hér sést brúin yfir eystri kvísl Skaftár.Egill Aðalsteinsson

Síðasta hlaup í Skaftá varð í september 2019, skömmu áður en nýja Eldvatnsbrúin var opnuð umferð. Það reyndist lítið en hlaupin úr vestri katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.

Sagan sýnir hins vegar að hlaup úr eystri katlinum geta fylgt í kjölfarið. Spennandi verður að sjá hvort það gerist á næstu dögum en þá gæti nýja Eldvatnsbrúin virkilega fengið eldskírnina með stórhlaupi.

Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 af vettvangi í gærkvöldi:

Hér má sjá hrikaleik hamfarahlaupsins haustið 2015:

Hlaupið 2015 laðaði að ferðamenn:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×