Fótbolti

Danska lands­liðið for­dæmir að­stæður í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kasper Schmeichel og Simon Kjær hafa verið í aðahlutverki með danska landsliðinu undanfarin ár.
Kasper Schmeichel og Simon Kjær hafa verið í aðahlutverki með danska landsliðinu undanfarin ár. Lars Ronbog/Getty Images

Leikmenn danska landsliðsins sem og knattspyrnusamband Danmerkur, DBU, fordæma aðstæður í Katar þar sem heimsmeistaramótið mun fara fram á næsta ári. Þetta kemur fram í yfirlýsingu liðsins í aðdraganda leikja í undankeppni HM.

Í yfirlýsingu á vef danska knattspyrnusambandsins er greint frá því að leikmannaráð landsliðsins hafi fundað með formanni sambandsins og forráðamönnum þess. Meðal þess sem var rætt var til að mynda bág staða verkafólks í Katar. Leikmennirnir taka undir gagnrýndi sambandsins á aðstæður í landinu.

„Eftir frábært Evrópumót þá hlakkar okkur til að komast á lokakeppni HM á nýjan leik. Sem fyrirliði verð ég þó að segja að við, leikmennirnir, ákváðum ekki að HM 2022 yrði spilað í Katar. Við erum mjög gagnrýnir á bága stöðu mannréttinda í landinu,“ sagði Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins, um málið.

„Við höfum opinberlega tjáð okkur um málið oftar en einu sinni en nú þurfum við að einbeita okkur að leiknum sjálfum, á vellinum, og reyna komast á lokakeppni HM. Við þurfum að leyfa DBU að sjá um pólitísk átök utan vallar,“ bætti hann við.

Jesper Møller, formaður DBU, fagnar því að sambandið hafi stuðning leikmanna liðsins í þessu máli.

„DBU og leikmenn danska landsliðsins komu ekki nálægt þeirri ákvörðun að halda HM í Katar. Þetta er umdeild ákvörðun og það eru enn mörg vandamál á sjóndeildarhringnum. Sérstaklega hvað varðar mannréttindi. Frá 2015 höfum við í samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir höfum við reynt að breyta þeim hlutum sem við getum í Katar. Það er okkar skylda að berjast fyrir bættri stöðu mannréttinda í Katar,“ sagði Møller, að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×