Ráðherra hefur jafnframt framlengt gildistíma reglugerðar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands til 31. október næstkomandi. Málið hefur verið mikið deilumál milli sjúkraþjálfara og SÍ.
Rammasamningur sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara við SÍ rann út í lok janúar 2019. Engin lausn fékkst í málið og sögðu sjúkraþjálfarar sig frá samningi við SÍ í nóvember sama ár. Mánuði síðar úrskurðaði gerðardómur að það hafi verið óheimilt en þeir fengu það þó í gegn að þeim væri heimilt að rukka sjúklinga eftir eigin gjaldskrá.
Gildandi reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hefur verið framlengd þar til í lok október en hefði að óbreyttu runnið út um þessi mánaðarmót. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
„Vonir stóðu til að samningar næðust milli Sjúkratrygginga Íslands og sjúkraþjálfara fyrir þann tíma, en það gekk ekki eftir. Því var ákveðið að framlengja gildistíma reglugerðarinnar þannig að þau sem þurfa á þessari mikilvægu þjónustu njóti greiðsluþátttöku sjúkratrygginga, þrátt fyrir að samningur um þjónustu liggi ekki fyrir.“